Á tæpum tveimur árum hafa 13 óeðlileg dauðsföll og röð læknamistaka verið til rannsóknar á Ahus, nýjasta og tæknivæddasta sjúkrahúsi Noregs, sem er undir stjórn Huldu Gunnlaugsdóttur. Meðal þeirra sem létust voru eins árs gamall drengur, tvítug stúlka og barnshafandi kona. Hægt hefði verið að bjarga þeim öllum.
Hulda er í forsíðuviðtali í nýjasta tölublaði Nýs lífs sem kom út í dag.
Hún hefur verið í eldlínunni í umfangsmestu breytingum sem gerðar hafa verið á norska heilbrigðiskerfinu, hún hefur sætt harðri gagnrýni og norski heilbrigðisráðherrann hætti vegna málsins, auk tveggja annarra stjórnenda.
Ahus var gert að þjóna 160.000 íbúum af Óslóarsvæðinu til viðbótar við rúmlega 320.000 íbúa Akerhus-fylkisins sem hann þjónaði þegar.
Yfirvöld gerðu ráð fyrir að með þessu myndi heilbrigðisstarfsfólk vilja flytja sig frá Ósló til Ahus. Það gekk hins vegar ekki eftir. „Þegar verst lét, skorti að minnsta kosti 400 starfsmenn,“ segir Hulda.
Hulda brást við með nokkuð óvenjulegum hætti. Hún kom auðmjúk fram og talaði til aðstandenda hinna látnu. „Mér fannst vera kominn tími til að stíga fram, viðurkenna það sem gerðist og biðjast fyrirgefningar,“ segir Hulda.