Íslenska krónan er þriðji vinsælasti erlendi gjaldmiðillinn á fyrsta fjórðungi ársins 2013, ef marka má gjaldeyriskaup breskra handhafa American Express greiðslukorta.
Kortafyrirtækið American Express birti í dag upplýsingar um hverjir séu þrír vinsælustu áfangastaðir breskra korthafa. Niðurstaðan byggist á gjaldeyriskaupum korthafanna á tímabilinu.
Á sama tíma hrjáði harður vetur og leiðindatíð Breta og því koma tveir helstu áfangastaðirnir ekki á óvart, en þeir eru Egyptaland og Taíland. Þangað sóttu þeir í sól og hlýtt veður.
En hluti Bretanna hefur ekki fengið nóg af snjó og vetri því Ísland er óvænt þriðji vinsælasti áfangastaður handhafa American Express korta í Bretlandi. Segir kortafyrirtækið að miðað við sama tímabil í fyrra hafi tælenski baht, egypska pundið og íslenska krónan sótt verulega í sig veðrið.