Már unir dómnum

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. Ernir Eyjólfsson

Már Guðmundsson seðlabankastjóri unir niðurstöðu Hæstaréttar sem féll í dag varðandi launakjör hans. Hann segir að í málatilbúnaði sínum hafi aldrei verið efast um rétt Alþingis til að setja lög með það að markmiði að laun embættismanna væri ekki hærri en laun forsætisráðherra og segir ýmsa forstöðumenn ríkisstofnana og fyrirtækja hafa haldið óbreyttum launum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Már sendi frá sér í kvöld.

„Nú hefur Hæstiréttur fellt dóm sinn og komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun kjararáðs standist lög. Þar með er staðfest að samkvæmt núgildandi lögum er hægt að skerða laun seðlabankastjóra og annarra sem svipaða stöðu hafa á gildistíma tímabundinnar skipunar þeirra. Jafnframt er staðfest að þeir sem búa við ráðningarsamninga með skilgreindum uppsagnarfresti búa við betri stöðu en þeir sem eru skipaðir með ráðherrabréfi. Ég mun auðvitað una þeirri niðurstöðu,“ segir í yfirlýsingu Más.

Þar rekur hann málavöxtu og segir meðal annars: „Forsaga málsins er sú að starf seðlabankastjóra var auglýst laust til umsóknar í mars 2009. Mér fannst ég ekki geta hrokkið undan því að sækja um starfið vegna þeirrar stöðu sem Ísland var í. Það var svo annarra að meta hvort aðrir væru til þess hæfari en ég að gegna starfinu. Í auglýsingunni kom fram að laun og önnur kjör væru ákveðin af bankaráði Seðlabanka Íslands. Ég var um þær mundir aðstoðarframkvæmdarstjóri hjá Alþjóðagreiðslubankanum í Basel í Sviss sem auk þess að vera banki er fundar- og rannsóknarsetur seðlabanka heimsins. Ég gerði mér auðvitað grein fyrir að ég myndi búa við allt önnur kjör sem seðlabankastjóri á Íslandi en þau sem ég bjó við í starfi mínu í Basel,“ segir Már í yfirlýsingunni.

Kynnti sér kjörin

„Áður en ég lagði inn umsókn kynnti ég mér þau kjör sem bankaráð Seðlabanka Íslands tók ákvörðun um nokkrum dögum áður en umsóknarfrestur rann út í lok mars 2009. Hafði ég þessar upplýsingar til hliðsjónar þegar ég í samráði við fjölskyldu mína tók endanlega ákvörðun um að senda inn umsókn.“

Var sagt að skerðingin yrði lítil

Um miðjan júní 2009 var lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem gert var ráð fyrir að föst dagvinnulaun ýmissa æðstu embættismanna og forstöðumanna ríkisstofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins yrðu lækkuð til samræmis við föst laun forsætisráðherra. Már segir að sér hafi verið tjáð að frumvarpið myndi ekki hafa veruleg áhrif á kjör hans og honum hafi verið gefin fyrirheit um að skerðing launa seðlabankastjóra yrðu mun minni en ætla mætti af frumvarpinu.

„Síðar kom í ljós að það skorti getu til að standa við það fyrirheit. Í öðru lagi virtist það ekki skipta máli þar sem ég yrði skipaður áður en lögin tækju gildi, en í umsögn efnahags- og skattanefndar Alþingis um frumvarpið var sérstaklega tekið fram að kjararáð skyldi gæta að því að skerða ekki áunnin réttindi starfsmanna afturvirkt. Hélt ég því síðan stöðugt á lofti gagnvart kjararáði þegar svo virtist sem það ætlaði þrátt fyrir það að láta skerðingu koma til framkvæmda afturvirkt, á skipunartíma.“

Telur seðlabankastjóra ekki eiga að fá sérmeðferð

„Það er þessi ferill málsins og þær grundvallarspurningar sem hann vekur varðandi stjórnskipunarlega stöðu seðlabankastjóra sem er meginástæða þess að ég lét reyna á það fyrir dómstólum en ekki virtust aðrar leiðir færar til að fá úr þessum spurningum skorið.“

Már segist aldrei hafa talið að seðlabankastjóri ætti að vera undanskilinn ef meiriháttar efnahagsáfall kallaði á lækkun launa æðstu embættismanna ríkisins.

Sumir aðrir héldu óbreyttum launum

„Málið snýst fremur um það að slíkar ákvarðanir séu teknar með eðlilegum hætti, séu í samræmi við það sem gildir um aðra, opni ekki fyrir möguleika á að hægt sé að nota launaákvarðanir til að veikja stjórnskipunarlega stöðu seðlabankastjóra og grafa þannig undan sjálfstæði Seðlabankans. Það hafði enn fremur áhrif á þá ákvörðun mína að leggja málið í dóm að vitnast hafði að ýmsir forstöðumenn ríkisstofnana og fyrirtækja sem hafa ráðningarsamninga héldu óbreyttum launum út umsaminn uppsagnarfrest sem í sumum tilfellum var töluvert langur en að hann kom þegar til framkvæmda í mínu tilfelli og hugsanlega hjá sumum öðrum sem hafa fimm ára skipun án uppsagnarfrests.“

<a href="/frettir/innlent/2013/04/24/mar_faer_ekki_launaleidrettingu/" target="_blank">Frétt mbl.is Már fær ekki launaleiðréttingu</a>
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert