Samkvæmt tölum Seðlabankans um greiðslumiðlun var velta með debetkort 4,4% minni í marsmánuði í krónum talið en í sama mánuði í fyrra. Að teknu tilliti til kreditkortaveltu, sem jókst lítillega á sama tíma, dróst kortavelta saman um 2,3% að raungildi í marsmánuði.
Greining Íslandsbanka telur að einkaneyslan hafi dregist saman um 1-2% frá sama tíma í fyrra og yrði það í fyrsta sinn frá 2. ársfjórðungi árið 2010 sem einkaneysla myndi dragast saman á milli ára.
Endanlegar tölur um einkaneysluna liggja þó ekki fyrir, en Greining Íslandsbanka vekur athygli á því að páskafrí landsmanna hafi að mestu náð yfir marsmánuð. Ætla hefði mátt að heimilin gerðu þá betur við sig en endranær.
Í fréttaskýringu um þessi mál í Morgunblaðinu í dag segir Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, kortaveltu eina skýrustu vísbendinguna um hvernig einkaneyslan þróast.