Umferðarþyngsta tíma morgunsins er nú að mestu lokið á höfuðborgarsvæðinu, þótt margir hafi verið lengur á ferð til vinnu og skóla í morgun en alla jafna vegna færðar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu gekk umferðin slysalaust fyrir sig, þótt eitthvað sé um yfirgefna bíla. Unnið er að söltun og mokstri.
Prófum í Háskóla Íslands sem hefjast áttu klukkan 9 var frestað um hálftíma, til 9:30, til að koma til móts við þá sem töfðust í umferðinni.
„Það eru yfirgefnir bílar hér og þar og hafa verið minniháttar óhöpp en allt slysalaust,“ segir Kristófer Sæmundsson vaktstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hálkan og ófærðin er hvað mest inni í íbúðagötum en á helstu umferðaræðum hefur hægst mjög á umferðinni vegna færðarinnar, enda hafa margir tekið nagladekkin undan bílunum og þurfa því að fara sér hægt í hálkunni.
„Morgunumferðin er farin að minnka mikið þótt það hafi teygst aðeins úr henni út af þessu. En veðurspáin segir að hitastigið eigi að hækka þegar líður á daginn og þá lagast þetta fljótt,“ segir Kristófer.
Samkvæmt Veðurstofu Íslands mun ofankoman breytast í rigningu þegar líður á daginn og festir þennan snjó því varla lengi.
Allir bílar úti að ryðja og salta
Allir saltbílar Reykjavíkurborgar hafa verið úti síðan klukkan hálffimm í morgun, samkvæmt Þorsteini Birgissyni stjórnanda hjá þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar. Einnig eru allar dráttarvélar borgarinnar notaðar til að ryðja snjó á göngustígum.
Samkvæmt Jóni Halldóri Jónassyni upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar kom snjókoman ekki eins mikið aftan að borgarstarfsmönnum eins og sumum öðrum. „Vaktin okkar og allur viðbúnaður gengur út á það að menn séu farnir af stað fyrir morgunumferðina. Það eru menn í því að gá til veðurs um miðjar nætur og svo er ræst út.“
Á meðan morgunumferðin er hvað þyngst getur þó verið erfitt að athafna sig á götunum. Að sögn Jóns Halldórs eru stofnbrautir settar í forgang og meginumferðargötur teknar í kjölfarið. Hverfastöðvarnar sjá svo um að ryðja snjóinn og salta í kringum strætóbiðstöðvar.
Jón Halldór segir að vakað sé yfir því að halda götum og stígum sem greiðfærustum en ef eitthvað yfirsést er hægt að benda á það í gegnum ábendingavefinn reykjavik.is/borgarland
Mikil hálka á höfuðborgarsvæðinu