Spáð norðanstórhríð á sunnudag

„Það er spáð norðanstórhríð um norðanvert landið á sunnudaginn,“ segir Björn Sævar Einarsson veðurfræðingur. Hann segir að það sé ekkert í veðurkortunum næstu daga sem bendi til að það sé að koma sumar, en sumardagurinn fyrsti er á morgun.

Björn sagði að það yrði kalt á landinu næstu daga. Það kæmi að vísu lægð upp að landinu á föstudag og þá myndi hlýna, en síðan kólnar aftur. Spáin fyrir sunnudaginn er dökk; norðan stórhríð um norðanvert landið og hvasst sunnanlands.

„Á laugardaginn, kosningadaginn lítur út fyrir vestanátt og talsverðan éljagang,“ sagði Björn. Hann sagði ekki endilega líklegt að veðrið yrði það vont að það kæmi til með að valda kjósendum eða talningamönnum erfiðleikum. Allt benti hins vegar til að það yrði ekkert ferðaveður fyrir norðan á sunnudaginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka