Björn Þorvaldsson saksóknari krafðist þess við upphaf réttarhalds yfir níu fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings að dómari hafnaði ósk Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, um að Gestur Jónsson yrði skipaður verjandi hans í málinu. Dómari hafnaði kröfunni, en saksóknari ætlar að kæra þá niðurstöðu til Hæstaréttar.
Gestur hefur verið verjandi Sigurðar í svokölluðu Al Thani máli, en hann sagði sig frá málinu í byrjun apríl. Björn sagði að í þessu máli, sem snýst um markaðsmisnotkun fyrrverandi starfsmanna Kaupþings, ættu við öll sömu rök og ættu við í Al Thani málinu. „Að Gestur skuli vera mættur hér er óskiljanlegt,“ sagði Björn og bætti við að það væri tifandi tímasprengja ef Gesti yrði heimilað að verja Sigurð í þessu máli. Hann benti á að ef Hæstiréttur myndi fallast á sjónarmið Gests í Al Thani málinu myndi það hafa áhrif á rekstur þessa máls.
Gestur mótmælti þessum sjónarmiði. Hann sagðist uppfylla öll skilyrði laga og virða ætti óskir Sigurðar um að hann yrði verjandi hans í þessu máli. Hér væri saksóknari að ráðast á einstaklinga í stað þess að láta efnisatriði ráða. Gestur sakaði Björn um að reyna að skora prik hjá almenningi. Það væri ekki gott fyrir dómstólana að samþykkja þessa beiðni.
Níu eru ákærðir í málinu, þar á meðal helstu stjórnendum Kaupþings. Sérstakur saksóknari segir í ákæru að brot þeirra hafi verið afar umfangsmikil, þaulskipulögð, stóðu yfir í langan tíma og vörðuðu gríðarlega háar upphæðir. Um er að ræða markaðsmisnotkun sem stóð yfir frá 1. nóvember 2007 til og með 8. október 2008.
Allir sakborningar lýstu sig saklausa af ákæruatriðum við fyrirtöku málsins í morgun.
Arngrímur Ísberg dómari lýsti því yfir í lok réttarhaldsins í dag að frekari meðferð málsins myndi frestast þar til niðurstaða Hæstaréttar lægi fyrir.
Verjendur ætla að leggja fram frávísunarkröfu í málinu, en dómari neitaði að taka frávísunarkröfuna fyrir að sinni.