Árni Johnsen mætti verst

Árni Johnsen á Alþingi.
Árni Johnsen á Alþingi. mbl.is/Ómar

Þeir þingmenn kjörtímabilsins sem voru oftast fjarverandi eru Árni Johnsen og Höskuldur Þórhallsson, samkvæmt Alþingisrýninum, nýjum vef á vegum Pírata. Vefnum er ætlað er að stuðla að auknu aðhaldi og samskiptum milli þings og þjóðar.

Á Alþingisrýninum má sjá hvernig einstakir þingmenn mættu í þingsal þegar greidd voru atkvæði á kjörtímabilinu sem og hversu oft þeir greiddu atkvæði með og gegn einstaka málum eða sátu hjá. Vefurinn tiltekur einnig sérstaklega hvort þingmennirnir kusu eftir flokkslínum eða ekki.

810 fjarvistir Árna Johnsen

Þegar listinn yfir s.k. „skrópara“ er skoðaður sést að meirihluti þeirra 12 þingmanna sem sjaldnast voru viðstaddir þegar atkvæði voru greidd sitja á þingi fyrir þá tvo flokka sem mælast nú stærstir og eru líklegastir til að sitja í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili. Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru á listanum og fjórir Framsóknarmenn.

Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, mætti sjaldnast í þingsal á kjörtímabilinu þegar greidd voru atkvæði og er alls með 810 fjarvistir skráðar. Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokks er með næstsístu mætinguna, er með 749 fjarvistir skráðar.

Hinir 8 þingmennirnir sem sjaldnast voru viðstaddir atkvæðagreiðslur eru Jón Bjarnason, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Birkir Jón Jónsson, Ásmundur Einar Daðason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Jón Gunnarsson, Bjarni Benediktsson og Kristján Þór Júlíusson, með á bilinu 569 til 455 fjarvistir.

Forseti Alþingis með næstbestu mætinguna

Það kemur kannski ekki á óvart að Ásta R. Jóhannesdóttir þingforseti hafi mætt vel í atkvæðagreiðslur, en á hana eru skráðar 80 fjarvistir allt kjörtímabilið. Ásta mætti þó ekki best allra þingmanna, heldur Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG. Hann er aðeins með 22 fjarvistir skráðar, en fyrir því er líka góð ástæða því Ólafur kom ekki inn á þing fyrr en um áramótin, í stað Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur.

Þeir þingmenn sem mættu best í atkvæðagreiðslur eru allir stjórnarliðar en meðal þeirra má nefna Þórunni Sveinbjarnardóttur, Oddnýju G. Harðardóttur, Guðbjart Hannesson, Lúðvík Geirsson og Björn Val Gíslason.

Upplýsingarnar eru birtar með fyrirvara um mistök við gagnasöfnun og úrvinnslu. Alþingisrýnirinn var opnaður í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka