Reykhólavefurinn fimm ára

Reykhólavefurinn á fimm ára afmæli í dag.
Reykhólavefurinn á fimm ára afmæli í dag. Skjáskot af Reykhólavefnum

Í dag á vefur Reykhólahrepps, reykholar.is, fimm ára afmæli. Það er einstaklega mikilvægt bæði fyrir íbúa hreppsins og þá brottfluttu, rétt eins og fyrir sveitarfélagið sjálft, að hafa svona virkan og lifandi vef,“ segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps í samtali við Bæjarins besta.

„Þetta eru auðvitað tveir vefir í einum og þannig skapast nálægð í báðar áttir þar sem fréttaveita mannlífs og menningar samþættist við upplýsingar um sveitarstjórnarmálin og stjórnsýslu hreppsins,“ segir Ingibjörg Birna.

Margir heimsækja vefinn

Að sögn hennar hefur vefurinn allt frá stofnun verið mjög mikið sóttur sé litið til mannfjölda í sveitarfélaginu. Meðalfjöldi heimsókna á dag það sem af er þessu ári er nálægt því að vera tvöfaldur íbúafjöldi hreppsins, en upplýsingaflæði og þróun hugmynda og lýðræðislegra vinnubragða í bænum byggi algjörlega á opinni stjórnsýslu af þessu tagi. Þessa staðreynd vill hún rekja til þrotlausrar vinnu umsjónarmanns vefjarins, Hlyns Þórs Magnússonar á Reykhólum, fyrrum ritstjóra og menntaskólakennara, sem hefur séð um Reykhólavefinn þessi fimm ár. 

Reykhólahreppur í núverandi mynd varð til árið 1986 við sameiningu allra hreppanna í Austur-Barðastrandarsýslu, þ.e. Geiradalshrepps, Reykhólahrepps hins gamla, Gufudalshrepps, Múlahrepps og Flateyjarhrepps. Þannig er mestur hluti Breiðafjarðareyja innan vébanda hreppsins, en að öðru leyti spannar hann svæðið frá Gilsfirði og vestur að Skiptá í Kjálkafirði, rétt austan við Flókalund. Flatarmál sveitarfélagsins er um 1.090 ferkílómetrar og íbúafjöldi um 280 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert