Sykursjúkir „sitja í sjokki“

Hópurinn segir að hingað til hafi insúlín verið niðurgreitt að …
Hópurinn segir að hingað til hafi insúlín verið niðurgreitt að fullu. Nú verði gerð breyting þar á.

Hópur sykursjúkra segist sitja í sjokki vegna breytinga á lögum um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði. „Fyrirhuguð breyting er þungt högg fyrir alla með sykursýki 1, foreldra barna með sykursýki og ekki síst ung börn með sykursýki sem allt lífið munu greiða háar fjárhæðir fyrir lyfin sín,“ segir í yfirlýsingu frá hópnum.

4. maí taka nýju lögin gildi og kemur hún misjafnlega niður á sjúklingahópum eins og mbl.is fjallaði um í gær. 

Hópurinn segir að margir hafi gagnrýnt frumvarpið. Sykursjúkir komi mjög illa út úr fyrirhugðum breytingum, „situr í sjokki“ og skilur ekki hvernig frumvarpið fór í gegnum nefndir og ráð án þess að neinn átti sig á því í hvaða stöðu það setur fólk með sykursýki í.

„Fólk með sykursýki er ekki þekkt fyrir að kvarta yfir hlutskipti sínu en fyrirhugaðar breytingar eru svo óréttlátar að nú verður að bregðast við,“ segir í yfirlýsingunni og bent er á að hingað til hafi insúlín, sem er sykursjúkum lífsnauðsynlegt, verið niðurgreitt að fullu.

Þar kemur fram að eftir breytingarnar mun fullorðinn einstaklingur með sykursýki greiða 35.937 krónur fyrir insúlín við fyrstu komu í apótek, en 26.707 fyrir börn, ungmenni og elli- og örorkulífeyrisþega. Eftir það mun greiðslan vera um 8.250 krónur hjá sykursýkissjúklingi í hvert skipti eftir það. Að hámarki verður upphæðin 69.000 hjá fullorðnum og 48.000 fyrir börn, ungmenni og elli- og örorkulífeyrisþega á einu ári. Að árinu loknu hefst nýtt tímabil þar sem insúlínið mun að nýju kosta 35.937/26.707 við fyrstu komu í apótekið.

Heildarkostnaður fullorðins einstaklings eftir breytinguna getur farið upp í 140-180 þúsund krónur á ári. Þar vegur lyfjakostnaður upp á 69.000 krónur mjög þungt. 

„Með þessu vanhugsaða frumvarpi mun fólk með sykursýki sem býr í landi „velferðar og jöfnuðar“ búa í því samfélagi þar sem einna verst er að greinast með sykursýki í allri Evrópu,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka