Tíma mun taka að bæta „orðsporstjónið“

Sveinn Arason, -ríkisendurskoðandi.
Sveinn Arason, -ríkisendurskoðandi. mbl.is/Kristinn

Árlegt framlag til Ríkisendurskoðunar hefur lækkað um tæplega þriðjung að raungildi á tímabilinu 2008‒2012 og starfsmönnum hefur fækkað um sjö. „Það gefur augaleið að svo mikil fækkun hlýtur að koma niður á getu stofnunarinnar til að sinna verkefnum sínum,“ segir Sveinn Arason, ríkisendurskoðandi í ársskýrslu stofnunarinnar.

„Ég tel að nú sé komið að þolmörkum í þessu efni og að ekki verði lengra gengið í niðurskurði án þess að jafnframt verði hugað að því að breyta verkefnum Ríkisendurskoðunar og draga úr lögbundnum skyldum hennar,“ skrifar Sveinn.

„Orrahríð“

Einnig rifjar ríkisendurskoðandi upp harða gagnrýni sem stofnunin fékk á síðasta ári sökum þess að dregist hafði að ljúka úttekt á kaupum og innleiðingu á fjárhags- og mannauðskerfis ríkisins (Orra):

„Stofnunin reyndi að bregðast við þessari orrahríð, leiðrétta misskilning og útskýra málið,“ skrifar Sveinn.  „En þunginn í umræðunni var mikill og ljóst er að einhver tími mun líða áður en það orðsporstjón sem stofnunin varð fyrir vegna hennar verður að fullu bætt.“

Sveinn útskýrir aðdraganda málsins og segir að tafir á vinnslu skýrslunnar hafi verið óviðunandi. „Á þeim bar ég að sjálfsögðu fulla ábyrgð. Ég gerði ítarlega grein fyrir ástæðum þeirra í sérstöku minnisblaði sem ég sendi forseta Alþingis í byrjun október. Forseti gerði ekki athugasemdir við skýringar mínar. Þá hafa ráðstafanir verið gerðar til að tryggja að atvik af þessu tagi geti ekki endurtekið sig.

Í lok september lagði forseti Alþingis fyrir mig að skila endanlegri skýrslu um kaupin og innleiðinguna á Orra fyrir lok október. Skýrslunni var skilað til forseta 30. október og jafnframt birt opinberlega. Hún er mjög frábrugðin þeim ófullkomnu drögum sem lekið var til Kastljóss, bæði hvað varðar framsetningu og efnislegar niðurstöður. Að baki lokaskýrslunni býr mikil og vönduð vinna og niðurstöður hennar eru vel rökstuddar. Það vekur óneitanlega athygli að mjög lítil opinber umræða hefur orðið um hana, sem væntanlega segir sína sögu um gæði hennar.“

Ársskýrslu Ríkisendurskoðunar má nálgast hér.

Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.
Sveinn Arason ríkisendurskoðandi.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert