Hjólreiðamenn kvarta margir sáran undan torginu fyrir framan tónlistarhúsið Hörpu. Telja þeir að um slysagildru sé að ræða.
Fjölmörg dæmi eru um að fólk hafi sprengt dekk á ferð um torgið vegna vatnsrennu sem er á torginu. Þá hafa a.m.k. tveir hjólreiðamenn beinbrotnað við að detta á torginu.
Viktor Þór Sigurðsson hjá hjólaversluninni Tri segir að hjólreiðafólk hafi leitað til verslunarinnar í um tug tilvika vegna skemmds dekks eftir að hafa hjólað um torgið. „Fólk tekur ekki eftir þessum vatnslínum sem settar eru í torgið og lendir skyndilega ofan í þeim,“ segir Viktor og bætir við að torgið sé enn hættulegra hjólreiðafólki að vetrarlagi þegar snjór er yfir því, að því er segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.