Gigtveikt fólk nýtur margt hvert góðs af nýju greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands vegna lyfjakostnaðar. Emil Thóroddsen, framkvæmdastjóri Gigtarfélags Íslands, segir að á heildina litið sé nýja kerfið sanngjarnara enda sé fólki ekki mismunað eftir sjúkdómum eins og verið hefur.
„Það er náttúrulega mannréttindabrot að mismuna fólki svona eins og hefur verið gert. Okkar mat er að þetta sé sanngjarnara kerfi,“ segir Emil. Hugmyndafræði núverandi kerfis byggir á því að flokka sjúkdóma eftir alvarleika. Þetta þýðir að sumir þurfa að greiða mun hærri lyfjakostnað á meðan aðrir fá lyf sín niðurgreidd að fullu.
Í nýja kerfinu, sem tekur gildi 4. maí, er horft til uppsafnaðs lyfjakostnaðar yfir 12 mánuði óháð sjúkdómum, eins og mbl.is hefur fjallað um.
Gigtarsjúklingar flestir á mörgum lyfjum
Sum þeirra sem þjást af gigt högnuðust á því að krabbameinslyf hafa verið niðurgreidd að fullu í gamla kerfinu, því við ákveðnum tegundum bólgugigtar hafa krabbameinslyf reynst hvað best. Þau sem taka lyf sem ekki voru eyrnamerkt fyrir krabbameinssjúka hafa ekki verið eins heppin.
Emil segir ljóst að gigt hafi ekki fengið þá forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu sem tilefni sé til, því um mjög alvarlegan sjúkdóm sé að ræða og oft lífshættulegan. „Ekkert líffæri er óhult fyrir gigt. Það er meðal annars skýringin á því af hverju gigtarfólk kemur vel út úr þessu nýja kerfi, því það er að taka svo mörg lyf.“
Hann nefnir dæmi um einn félagsmenn í Gigtarfélaginu sem býr við örorku og greiðir um 10 þúsund krónur á mánuði í lyfjakostnað. Í nýja kerfinu fer kostnaðurinn lækkandi eftir fyrstu 24.075 krónurnar, og ef kostnaðurinn fer upp fyrir ákveðið þak á 12 mánaða tímabili er hægt að sækja um að SÍ greiði 100% af lyfjakostnaði það sem eftir er ársins.
„Það gefur auga leið að þessi kona mun fara mun betur út úr þessu kerfi,“ segir Emil. Hún mun nú hafa rétt á því að sækja um þak í ágúst eða september og verði það samþykkt þarf hún ekki að greiða aftur fyrir lyf fyrr en í maí á næsta ári.
Á hinn bóginn eru margir gigtveikir einnig með sykursýki, og líkt og mbl.is hefur fjallað um eru sykursýkislyf að fullu greidd af SÍ í gamla kerfinu, en verða það ekki lengur frá og með 4. maí.
Jafnræðið grundvallaratriði
Emil segir ljóst af þessu að varasamt sé að stilla upp einstaklingum til marks um hvort nýja kerfið sé gott eða slæmt. „Það verður að horfa á heildina og þetta nýja kerfi er skýrara og einfaldara, með allt uppi á borðinu og mismunar ekki fólki. Jafnræðið er prinsippið í þessu, að mismuna ekki sjúklingum.
Ég vona að þetta gefi fordæmi fyrir því að horft sé á fólk á jafnræðisgrunni í heilbrigðiskerfinu, til dæmis hvað varðar umönnunarbætur þar sem fólki er mismunað eftir því hvort það tekur lyf inn á töfluformi eða sprautu.“
Emil tekur þó fram að þótt Gigtarfélagið sé ánægt með jafnræðisnálgun í nýja kerfinu séu líka ýmsar efasemdir. „Þetta er miklu heilbrigðara kerfi, en það þýðir ekki að við séum ánægð með að fólk þurfi að borga svona mikið í byrjun. Það verða alltaf þessir krítísku þættir um hvaða lyf fá greiðsluþátttöku og hvar þrepin eru, hversu mikið fólk þarf að borga áður en það nær ákveðnu hámarki.
„Okkur er lofað því að hlutfallið sé ekki að breytast þannig að sjúklingar á heildina þurfi að borga meira. Við höfum engar forsendur til annars en að trúa því, en þess vegna höfum við líka lagt áherslu á að það verður að taka þetta kerfi út eftir eitt til tvö ár og sjá hvort eitthvað þarfnist endurskoðunar.“
Á vefsíðu Sjúkratrygginga Íslands er nú hægt að nálgast s.k. Lyfjareiknivél sem sýnir kostnað hvers og eins í nýja kerfinu með einföldum hætti.