Það er ekkert „bara“ við kannabis

mbl.is

„Sennilega var hann bara nýbúinn að klára grunnskólann þegar hann fékk sér í fyrsta skipti „bara gras“. Síðan var ekki aftur snúið. Neyslan hefur gjöreyðilagt líf hans og sundrað fjölskyldunni. Hann fullyrðir að þetta sé ekki fíkniefni, heldur bara gras. En það er ekkert „bara“ við kannabis.“

Þetta segir ung kona, en kannabisneysla bróður hennar hefur haft mikil áhrif á líf hans og annarra í fjölskyldunni. Hún vill ekki láta nafns síns getið af tillitsemi við bróður sinn og foreldra þeirra. Hún segir bróður sinn neyta kannabis daglega, líklega hafi hann byrjað á því undir lok grunnskóla. Hún segist undrandi á þeirri viðhorfsbreytingu sem orðið hefur á undanförnum árum og að margir telji nú að kannabis sé ekki skaðlegt. Saga bróður hennar sýni fram á hið gagnstæða.

Sá fyrir mér að hann yrði lögreglumaður

„Hann var strákur með náðargáfu gagnvart dýrum, mannlegum samskiptum og íþróttum. Í raun var ég alltaf frekar öfundsjúk út í hann. Hann var ótrúlega sprettharður, stundum virtist sem hann væri með gorma undir iljunum. Hann laðaði dýr að sér hvar sem hann kom og var næmur gagnvart líðan þeirra og hegðun, þótt hann væri mjög ungur að árum.“

„Ég sá alltaf fyrir mér að hann yrði lögreglumaður. Í mjög góðu líkamlegu formi, snöggur að hugsa, vinalegur, brosmildur og gat talað við hvern sem er. Svo gerðist eitthvað. Eitthvað sem ég get ekki skilið eða ætla í raun ekki að reyna að skilja. En hann byrjar í kannabisneyslu. Við skulum átta okkur á því að hann er ekki kominn af brotnu heimili þar sem foreldrar voru ekki til staðar, það var engin óregla á heimilinu eða neitt slíkt.“

Staðráðinn í að reykja kannabis allt sitt líf

Undanfarin ár hefur líf bróður hennar verið markað af neyslunni sem hefur haft margvísleg áhrif. Hún segir hann af og til vera á vinnumarkaði, hann fái stundum störf en haldist afar illa á þeim og sé oft rekinn vegna lélegrar mætingar sem má rekja til neyslunnar. Hann er nú rúmlega tvítugur.

„Fíknin er svo ofboðsleg, hún er öllu yfirsterkari. En hann myndi aldrei viðurkenna það, eða að fíknin gerði honum erfitt fyrir. Aldrei. Hann er staðráðinn í að reykja kannabis allt sitt líf og trúir því statt og stöðugt að það geri honum ekkert mein. Hann fullyrðir að þetta sé ekki fíkniefni, að þetta sé ekki hættulegt og að það sé ekki möguleiki á að taka of stóran skammt. En þetta hefur eyðilagt líf hans. “

Lýgur, stelur, eyðileggur og særir

„Í dag er hann orðinn fullorðinn í laganna skilningi. Á örfáum árum hefur bróðir minn horfið mér sjónum. Í stað hans er kominn einstaklingur sem lýgur, stelur, eyðileggur og særir fólkið í kringum sig. Fjölskyldan situr uppi með einstakling sem hún veit ekkert hvernig á að tala við eða vernda gagnvart sjálfum sér, fíkninni, efnunum og heimi fíkniefnanna.“

„Þótt sumir haldi öðru fram að þá er kannabis fíkniefni og meðhöndlað sem slíkt í undirheimunum. Við höfum þurft að „kynnast“ handrukkurum, skemmdum bílum, skemmdum rúðum brotnum innréttingum og horfnum peningum. Bróður mínum hefur verið hótað og hann hefur verið skelfingu lostinn. Og við skulum átta okkur á því að bróðir minn reykir gras og „bara gras“ hann er ekki komin í hörð efni sem eiga að vera svo mikið hættulegri heldur en neysla á kannabisefnum.“

Hættulegt viðhorf til kannabisefna

„Þetta kæruleysislega viðhorf til kannabis er svo hættulegt. Það þykir ekkert tiltökumál að Justin Bieber, sem er elskaður og dáður af börnum og unglingum, skuli fá sér í haus. Margir foreldrar tala líka kæruleysislega um kannabisneyslu, en þetta er stórhættulegt fyrir unga fólkið okkar. Við heyrum sagt: En hann er bara í grasi... en það er ekkert „bara“við kannabisefni.“

Kannabis
Kannabis AFP
Kannabis
Kannabis Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert