Að mati Ólafs Þ. Harðarsonar, prófessors í stjórnmálafræði við HÍ eru Framsóknarflokkur og Björt framtíð sigurvegarar kosninga. Að sama skapi segir hann helstu tíðindin þau að ríkisstjórnarflokkarnir hafi misst mesta fylgi ríkisstjórnar í allri Vestur-Evrópu frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar.
Þetta kom fram í hádegisfréttum á RÚV. Ríkisstjórnarflokkarnir töpuðu 27,7% atkvæða en næst mesta fylgistap ríkisstjórnar hérlendis var árið 1978 þegar Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur töpuðu um 18%. Ólafur hefur þó þann fyrirvara að ríkisstjórnarflokkarnir hafi haft óvenju gott fylgi árið 2009.
Hann segir að nýir flokkar fái nú samanlagt um 25% atkvæða sem sé svipað og var árið 1987 og að Björt framtíð fái af því 8% sem sé með því besta sem nýir flokkar hafi gert.
Hann telur það góðan árangur hjá Pírötum að hafa komist yfir 5% múrinn og bendir á að um 12% atkvæða hafi fallið á flokka sem hafi ekki komið neinum manni á þing og að það sé tvöfalt hærra hlutfall sem hafi gerst síðan 1934.
Hann segir úrslitin þau næst verstu í sögu Sjálfstæðisflokksins en að flokkurinn sé hinsvegar stærsti íslenski stjórnmálaflokkurinn á ný og sé augljós ríkisstjórnarkandídat. Hann telur úrslitin ásættanleg fyrir flokkinn miðað við aðstæður.
Ólafur segir að Samfylkingin hafi beðið versta fylgistap flokks í sögunni, en flokkurinn tapaði tæplega 17 prósentustigum frá kosningunum 2009. Hann segir gamla metið hafa verið árið 2009 þegar Sjálfstæðisflokkurinn tapaði 13 prósentustigum atkvæða frá kosningunum 2007.