„Það er verið að grafa hér allt í kringum þá og búa til einskonar sundlaug fyrir þá,“ segir Jón Stefánsson, lögreglumaður á Langanesi, þar sem fimm háhyrningar syntu upp í fjöru fyrr í dag. Tveir þeirra eru dauðir.
„Það er alltaf að fjara meira og meira - þetta er bara sandur hérna. Við ætlum að geyma þá bara í þessari svokölluðu sundlaug þangað til flóðið verður í nótt,“ segir Jón en ein öflug grafa er á vettvangi.
„Þeir eru komnir í góða holu þessir tveir stóru. Það léttir mikið á þeim að þurfa ekki að vera á þurru landi. Það er bara grafið í kringum þá og svo fyllst þetta af sjó,“ segir hann.
Jón segir mikið af fólki hafa komið að björgun hvalanna og að íbúar af svæðinu hafi einnig nokkuð margir gert leið niður í fjöru til að skoða aðstæður.
„Svo er kálfur hérna utar sem við ætlum að reyna að bjarga eins. Hann er búinn að synda þrisvar sinnum á land og búið að bjarga honum þrisvar sinnum. Hann kemur alltaf upp aftur,“ segir Jón og bætir við: „Hvalasérfræðingur sagði mér að ef kálfarnir hefðu ekki einhver fullorðin dýr til að elta þá væru þeir vonlausir. Við ætlum að reyna að koma honum út um leið og við komum þessum stóru út.“
Búist er við háflóði milli hálf þrjú og þrjú í nótt að sögn Jóns. Hann segir að björgunarsveitin verði á vaktinni þangað til hvalirnir verði komnir á haf út á ný. Jón segir háhyrningana við sæmilega heilsu en að þeir standi enn aðeins upp úr vatni.