„Þetta er bara jökull yfir að líta núna. Það er meira að segja svo hvítt að ég held að gæsirnar sem komu hingað um daginn séu farnar,“ segir Marteinn Sigurðsson bóndi á Kvíabóli í S-Þingeyjarsýslu. Bændur á Norðurlandi óttast að lítið verði um kornrækt þar í ár.
Í nótt var 18,5 stiga frost við Mývatn og 17.8 stiga frost á Staðarhóli. Í morgun var 10 stiga frost á Kvíabóli og spáð er áframhaldandi kuldatíð næstu daga. Það er engin hláka í spánni.
Marteinn hefur ræktað talsvert mikið af korni sem hann notar í skepnufóður, en hann er með rúmlega 200 nautgripi á fóðrum. Síðustu ár hefur hann verið að sá um mánaðamótin apríl/maí. Hann er búinn að kaupa talsvert af fræi, en efast um að hann nái að sá því öllu í vor. „Við setjum væntanlega eitthvað niður ef það horfir sæmilega þegar líður á mánuðinn. Það er hægt að sá allt fram til 20. maí, en þetta verður minna en venjulega.“
Marteinn segir að talsvert sé um að bændur séu að verða heylausir. Hann segist hafa átt nóg af heyjum í haust og sé búinn að láta frá sér það sem hann hafi mátt missa. Hann segir að í Þingeyjarsýslu muni bændur væntanlega leggja megináherslu á að ná nægum heyjum í sumar, en minni áhersla verði á kornrækt. Heyskapur í fyrra var með minna móti vegna þurrka og lélegrar sprettu.
Marteinn segist ekki hafa áhyggjur af því að það sé mikill klaki í jörðu enda hafi frost sjaldan farið yfir 12 stig í vetur. „Við þurfum bara eindregna suðvestan átt og 20 stiga hita til að bræða þann snjó sem hér er. Það er hins vegar ekki boði eins og nú horfir.
Það sem er óvenjulegt við þennan vetur er að hefur aldrei í vetur komið hláka hjá okkur. Hér er enn snjór sem féll í september og október,“ segir Marteinn.
Marteinn segir að þetta sé eitt versta vor sem komið hafi í mörg ár. Það megi bera það saman við vorið 1979, en þá þiðnaði ekki fyrr en maí/júní. Hann segir að sumir nágrannar sínir tali um að núna sé meiri snjór en 1979. Í Kinninni, þar sem Marteinn býr, var hins vegar meiri snjór þá en núna.
Sem dæmi um snjóinn í vetur nefnir Marteinn að heyrullustæðan við bæinn er um 3,6 metrar á hæð, en þegar snjórinn var sem mestur var um 1,2 metrar niður á rúllurnar sem efstar voru í stæðunni.
„Ég held að menn séu búnir að afskrifa kornrækt hér um slóðir í ár,“ segir Trausti Þórisson, bóndi á Hofsá í Svarfaðardal, en þar er enn mikill snjór. Hann segist að það sé heilt yfir um metra þykkt harðfenni á túnunum.
Trausti segist ekki eiga von á að hægt verði að vinna í flögum í Svarfaðardal fyrr en um miðjan maí. Það sé spáð frosti næstu vikuna og því sé snjór ekki að taka upp.
Trausti hefur verið að sá í 8-14 hektara af korni á hverju vori síðustu ár. Hann hefur ekki keypt neitt fræ ennþá og reiknar ekki með að gera það. Hann segir að til að fá góða uppskeru sé mikilvægt að sá snemma, bæði til að nýta tímann og einnig rakann í jörðinni þannig að fræið spíri hratt og örugglega. Hann segir að reynsla manna í Svarfaðardal sé að það sé orðið tvísýnt um árangur ef menn eru sá eftir 15-20 maí. Hann segist einu sinni hafa náð að sá fyrir mánaðamót, en annars reyni menn að sá 5.-10 maí.
Trausti er einn þeirra bænda á Norðurlandi sem þurfti að kaupa sér hey í vetur. Hann keypti um 200 rúllur í haust og vonast eftir að það dugi. „Ég vona að þetta sleppi hjá mér. Menn eru hins vegar að kaupa mikið hey hér um slóðir núna. Það eru stöðugir heyflutningar í gangi flesta daga.“
Trausti segir að talsvert af heyinu komi úr Borgarfirði og af Suðurlandi. Lítið framboð sé af góðu heyi á Norðurlandi og þeir sem séu að leita að úrvals heyi til að gefa kúm þurfi því að fara út fyrir héraðið.