Lífróður kajakræðarans Guðna Páls Viktorssonar hófst um kl. 10:40 þegar hann lagði af stað frá Höfn í Hornafirði. Guðni Páll hyggst róa hringinn í kringum landið en tilgangurinn er að safna fé til styrktar Samhjálp.
Guðni Páll mun í fyrstu róa til Víkur í Mýrdal, en hann áætlar að koma þangað á föstudag.
Sigurlaug Ragnarsdóttir hjá Samhjálp fylgdist með Guðna Páli ýta úr vör. „Það er mjög kalt en yndislega fallegt veður,“ sagði hún í samtali við mbl.is. Hún bætti við að mjög margir hefðu verið mættir til að fylgjast með.
„Það er sko ekki neinn bilbug á þessum dreng að finna,“ segir Sigurlaug ennfremur um Guðna Pál, sem þurfti að leggja af stað degi á undan áætlun vegna veðurs.
Áætlað er að alls taki róðurinn um landið sex til átta vikur en vegalengdin er um 2.500 kílómetrar.