Efna ber það sem lofað var

Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB.
Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB. Morgunblaðið/Ómar

„Okkur hefur verið lofað miklum umbótum í nýafstaðinni kosningabaráttu. Krafa samfélagsins er að staðið verði við gefin heit. Og nú er það þeirra að efna sem lofuðu,“ sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, á fjölmennum útifundi í tilefni af baráttudegi verkalýðsins á Selfossi í dag.

Elín benti á að almenningi hafi verið lofað skuldaniðurfellingum, auknum ráðstöfunartekjum, lægri sköttum og aukinni atvinnuuppbyggingu á sama tíma og efla á mennta, heilbrigðis og almannatryggingakerfið. „Úrlausnarefnin eru enn gríðar mörg og flókin, og miklu hefur verið lofað sem vonandi verður hægt að standa við. Þar á ég ekki síst við húsnæðis og skuldamálin sem öðrum málum fremur voru fyrirferðamest í kosningabaráttunni.“

Hún sagði það hins vegar staðreynd að ákveðnir hópar hefðu gleymst og stjórnvöldum beri skylda til að hugsa betur um. „Það er nefnilega svo að fjöldi fólks býr ekki í eigin húsnæði heldur eru leigjendur. Margir þeirra sem eru á leigumarkaði hafa í gegnum tíðina hreinlega ekki haft efni á því að kaupa sér húsnæði og í reynd neyðst til að vera á leigumarkaði. Þetta er gjarnan fólkið sem minnst hefur á milli handanna og ef til stórfelldra skuldaniðurfellinga vegna húsnæðislána kemur verður þessi hópur algjörlega útundan.“

Þá sagði Elín að stjórnvöld megi ekki gleyma því að verðmæti eru ekki aðeins mæld í krónum og aurum. „Allar mælingar benda til þess að áherslur fólks hafi breyst nokkuð frá efnahagshruninu sem átti sér stað fyrir næstum fimm árum síðan. Rannsóknir sína okkur að í stað þess að setja vinnu og verðmætasköpun í 1. sæti metur fólk frítíma sinn og samverustundir með fjölskyldu og vinum meira en áður.“

Í því samhengi sagði hún að endurskoða beri vinnutíma fólks með styttingu vinnuvikunnar, lengja rétt foreldra til fæðingarorlofs og hækka greiðsluþak Fæðingarorlofssjóðs. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert