Sumarið virðist ætla að verða seint á ferðinni í Mývatnssveit og veturinn sem er að kveðja langur í báða enda. Ísinn á Mývatni hafði þó verið að hopa undan sólinni að undanförnu, eða þar til í fyrrinótt þegar frostið fór í 18 stig undir morgun. Frost við Mývatn í morgun fór hins vegar „aðeins“ í 13,9 stig.
Eftir nóttina höfðu stór svæði vatnsins frosið saman og fyrir bragðið þrengdi að fugli sem hefur verið að hópast til varpstöðvanna að undanförnu. Álftirnar verða því að koma sér saman á opnu vatni þar sem jarðhitinn hefur betur í baráttunni við frostið.
Sauðburður er hafinn á einstaka bæ og hjá öðrum að hefjast alveg á næstunni. Stórfenni er víða og meira en verið hefur í Mývatnssveit í allmörg ár.