Endingartíminn á dýrum og vönduðum hljóðbúnaði er mun skemmri í Reykjavík en nágrannaborgum okkar í Evrópu og Bandaríkjunum. Ástæðan er brennisteinsmengun frá Hellisheiðarvirkjun. Hljóðmenn segja þetta dýrt spaug. „Þetta kemur illa niðri á okkur, það er bara mjög einfalt,“ segir Sveinn Kjartansson, yfirmaður tæknimála í Stúdíó Sýrlandi.
Brennisteinsvetnismengun í lofti, t.a.m. frá virkjunum, getur orsakað mjög hraða tæringu efna á borð við kopar og silfur, þar sem það blandast súrefni óheft. Þetta getur valdið því að ending ýmiss tækjabúnaðar styttist verulega.
Silfrið tærist mjög hratt
„Þetta er hjartað í hljóðverinu. Svona búnaður er notaður í öllum stúdíóum til hljóðblöndunar,“ segir Sveinn.
„Í dýrari búnaði, eins og þeim sem við notum, eru gjarnan silfurkontaktar. Silfur er notað af því að það er góður leiðari, en [brennisteinsmengunin] veldur því að það sest á silfrið þannig að í stað þess að leiða verður það einangrandi. Þetta þýðir að eftir að nýr búnaður kemur í hús þá byrjar að braka í tökkum, stundum bara eftir nokkrar vikur. Þetta gerist mjög hratt,“ segir Sveinn.
Eitt, vandað hljóðblöndunartæki getur kostað á bilinu 10-12 milljónir að sögn Sveins. Þessum búnaði þarf að skipta út mun örar en í nágrannalöndunum. „Þeir [hljóðmenn] sem við tölum hvað mest við í London, Bandaríkjunum og annars staðar, þeir kannast ekkert við þetta. Þetta er alveg óþekkt vandamál þar.“
Byrjaði með Svartsengi, jókst með Hellisheiðarvirkjun
Í ódýrari tækjum er plastefni eða nikkel notað sem leiðari, þau eru ekki eins viðkvæm fyrir menguninni en hljómurinn er heldur ekki eins góður. Kopar og silfur eru bæði betri og dýrari, í þessari röð, en tærast hratt í snertingu við brennisteinsvetni í súrefni.
Gunnar Smári Helgason, hljóðmaður á Siglufirði, bendir á að hægt sé að nota gull til að komast fyrir þetta, en það sé bæði dýrara og erfiðara að ná í það enda sé hljóðbúnaðurinn allur innfluttur frá löndum þar sem ekki sé gert ráð fyrir að brennisteinsvetnismengun sé vandamál.
Hann segir hljóðmenn hafa byrjað að verða varir við þetta vandamál eftir að starfsemi virkjunarinnar í Svartsengi hófst árið 1976, en það hafi aukist til muna með opnun Hellisheiðarvirkjunar árið 2006.
Gunnar Smári starfaði áður í bænum og man til þess að vandamál vegna þessa hafi komið upp bæði hjá Stúdíó Sýrlandi og á Broadway.Nú býr hann og starfar á Siglufirði og segir sama vandamál ekki til staðar þar, það sé bundið við hljóðver á höfuðborgarsvæðinu.
Hundruð tækja
Jakob Tryggvason, sem starfar hjá Exton og situr í stjórn Félags tæknifólks í rafiðnaði, segir að allir í bransanum kannist við þetta vandamál og ástandið hafi versnað til muna við opnun Hellisheiðarvirkjunar fyrir um 7 árum.
„Það er alveg skýr munur. Fyrir nokkrum árum síðan þá settirðu upp búnað og þurftir svo varla að snerta við honum aftur fyrir en einhverjum árum seinna þegar hann var hreinsaður, slitnum rofum skipt út og slíkt. Núna er þetta allt farið að braka og bresta innan eins til tveggja ára,“ segir Jakob.
„Við erum ekki að tala um einhver 10-20 tæki, heldur hundruð tækja og þúsundir vinnustunda. Þetta er á þeim skala. Þetta er mikill kostnaður, bæði margar vinnustundir í hreinsun, fleiri viðgerðir og tækin endast styttra. Oft er það líka því miður þannig að því stærri, umfangsmeiri og dýrari sem tækin eru, því viðkvæmari eru þau fyrir þessu og því dýrari er viðgerðin.“