Ingólfur þarf að greiða milljarð

Slitastjórn Kaupþings höfðaði málið gegn Ingólfi.
Slitastjórn Kaupþings höfðaði málið gegn Ingólfi. mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Ingólfi Helgasyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings á Íslandi, til að greiða rúmlega einn milljarð króna, auk dráttarvaxta, vegna lána sem hann tók hjá Kaupþingi á árunum 2005-2007.

Nokkrir af helstu stjórnendum Kaupþings tóku há lán til hlutabréfakaupa í bankanum. Stjórn bankans ákvað í lok september 2008 að fella niður persónulegar ábyrgðir vegna þessara lána, en það var gert með þeim rökum að tryggja yrði að stjórnendur bankans héldu fullu fjárhagslegu sjálfstæði. Á þeim tíma hafði verð hlutabréfa í bankanum lækkað mikið í verði.

Slitastjórn Kaupþings felldi þessa ákvörðun úr gildi og hefur á síðustu árum reynt að innheimta lánin.

Helmingur lánsins fór í annað

Ingólfur tók fjögur lán hjá Kaupþingi á árunum 2005-2007. Samkvæmt útreikningum Kaupþings var staða þess láns sem veitt var árið 2005 1.036.893.679 krónur þann 25. september 2008. Um hin lánin, sem voru upp á yfir 900 milljónir, segir í dómnum að taka beri tillit til þess að lánin „kunni að hafa falið í sér ólögmæta gengistryggingu“.

Dómurinn snerist því eingöngu um fyrsta lánið. Um þetta lán segir í dómnum „að ljóst [sé] að ríflega helmingi lánsins var ráðstafað til annars en kaupa á hlutabréfum.“

Dómurinn felldi úr gildi ákvörðun stjórnar Kaupþings frá 25. september 2008 að fella lánið niður. Ingólfi var því gert að greiða Kaupþingi 1.078.158.619 krónur með dráttarvöxtum.

Þá var staðfest kyrrsetningargerð Sýslumannsins í Reykjavík frá 28. júní 2011 í 20% hlutafjár í eigu stefnda í Hvítsstöðum ehf. og eignarhluta Ingólfs í fasteignunum nr. 12 við Fákahvarf, Kópavogi og Smiðshöfða 9, Reykjavík.

Ingólfur Helgason, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings á Íslandi.
Ingólfur Helgason, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert