Nýtt kuldamet fyrir maí

Þessi gervitunglamynd, sem var tekin af Íslandi í gær, segir …
Þessi gervitunglamynd, sem var tekin af Íslandi í gær, segir meira en þúsund orð. Mynd fengin af vef Veðurstofunnar.

Þrjátíu og sex ára gamalt kuldamet fyrir maímánuð er fallið en á Grímsstöðum á Fjöllum mældist 17,6 stiga frost í nótt. Gamla metið var 17,4 stiga frost sem var sett 1. maí árið 1977 á Möðrudal á Fjöllum. Veðurstofa Íslands spáir áframhaldandi kuldatíð - sérstaklega á Norðurlandi.

„Þetta er frekar kalt hjá okkur,“ segir Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Hann segir að samkvæmt sjálfvirkum mæli Veðurstofunnar hafi mælst 17,6 stiga frost á Grímsstöðum á Fjöllum í nótt. „Það er kuldamet fyrir maí,“ segir Björn.

Það er ekki mikill vorbragur að sögn Björns en útlitið fyrir næstu daga lítur ekkert sérstaklega vel út. Ljóst sé að næsta vika verði fremur svöl og þá sértaklega um landið norðanvert.

Hann bendir hins vegar á að í dag og á morgun muni hlýna aðeins og líklega verði frostlaust víðast hvar á laugardag en búast megi við rigningu eða slyddu.

Á sunnudag megi búast við hvassviðri, slyddu eða snjókomu norðaustantil á landinu og á Austfjörðum muni frysta. Á mánudag sé gert ráð fyrir norðanátt með dálítilli snjókomu með köflum og frosti um landið norðanvert.

„Á þriðjudag koma lægðir að sunnan upp að austanverðu landinu. Þá fáum við kalda loftið yfir okkur. Ef þetta gengur eftir þá verður rigning eða snjókoma á austanverðu landinu. Það er ekki útlit fyrir að það komi nein lægð með hlýnandi veðri fyrr en á uppstigningardag [9. maí],“ segir Björn varðandi útlitið.

Nánar á vef Veðurstofu Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka