Hjalti Einarsson, fyrrum framkvæmdastjóri hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, lést á Landakotsspítala 1. maí síðastliðinn, 87 ára að aldri.
Hjalti fæddist í Bolungarvík 14. janúar 1926. Foreldrar Hjalta voru hjónin Einar Kristinn Guðfinnsson, útgerðarmaður og forstjóri í Bolungarvík, og Elísabet Hjaltadóttir.
Hjalti útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri 1946. Hann tók B.Sc. próf í efnaverkfræði frá University of Illinois árið 1951. Í kjölfarið lauk hann M.Sc. prófi í matvælaiðnaði frá Oregon State University árið 1953.
Hjalti var verkfræðingur hjá Rannsóknarstofnun Fiskifélags Íslands 1954-1957. Árið 1957 hóf hann störf hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, fyrst sem framkvæmdastjóri dótturfélagsins Frozen Fresh Fillets Ltd í Bretlandi. Frá árinu 1963 starfaði Hjalti sem verkfræðingur hjá S.H. í Reykjavík, fyrst sem deildarstjóri og síðar sem framkvæmdastjóri frá 1974-1991. Hjalti sat í fjölmörgum stjórnum og nefndum tengdum sjávarútvegsmálum, menntamálum og eflingu iðngreina. Hann sat í ráðgjafanefnd Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins í rúm 20 ár. Hann var formaður Sambands fiskvinnslustöðva frá 1975-1983. Í stjórn, framkvæmdastjórn og samningaráði Vinnuveitendasambands Íslands 1978-1984.
Hjalti var virkur í félagsmálum Garðabæjar og Garðasóknar. Hjalti var kvæntur Guðrúnu Halldóru Jónsdóttur frá Bolungarvík og lætur eftir sig fimm börn.