Fyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) hefur kynnt Orkuveitu Reykjavíkur hugmyndir um verksmiðjur sem framleiði verðmæti úr koldíoxíðs- og brennisteinsmengun frá Hellisheiðarvirkjun.
Áætlað útflutningsverðmæti afurðanna, metanóls og brennisteinssýru, yrði um fjórir milljarðar á ári og fjárfesting í verksmiðjunum um 6-7 milljarðar. Fyrirtækið rekur metanólverksmiðju í Svartsengi og yrði sama tækni nýtt til metanólvinnslu á Hellisheiði. Tæknin til vinnslu brennisteinssýru er að erlendri fyrirmynd.
Verksmiðjurnar þyrftu um 45 MW af orku og eru taldar skapa 40 störf, þ.m.t. fyrir tæknifólk. Afurðunum yrði skipað út til útflutnings frá Þorlákshöfn og byggð aðstaða þar.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur meðal annars fram, að forsvarsmenn CRI hafa fleiri járn í eldinum því þeir hafa einnig uppi áform um að reisa allt að tífalt stærri metanólverksmiðju á Reykjanesi en þá sem nú er þar fyrir.