Stelpurnar herja á nördaheima

Í dag er ókeypis myndasögudagurinn og af því tilefni hafa hundruð manns safnast saman í og við spila- og myndasögubúðina Nexus til að næla sér í frítt eintak af myndasögublaði. 

Að sögn Þórhalls Björgvinssonar umsjónarmanns myndasagna hjá Nexus er þetta í 12. skipti sem dagurinn er haldinn. Svo vill til að þetta er jafnframt Stjörnustríðsdagurinn sem haldinn er hátíðlegur um allan heim en á þessum degi, 4. maí árið 1977, var fyrsta Stjörnustríðsmyndin frumsýnd. 

„Erlendis segja þeir may the fourth be with you og vísa þar með í þá frægu línu, may the force be with you. Þessu tvennu slógum við saman í dag en ókeypis myndasögudagurinn er alltaf fyrsta laugardag í maímánuði,“ segir Þórhallur.

Stelpur koma sterkar inn

Síðustu þrjú árin hafa mætt 1000-1200 manns en hann segir útlit fyrir að enn fleiri mæti í dag. Í röðinni má meðal annars sjá fólk í Star wars búningum og sem persónur úr Manga teiknimyndunum. Stærstur hluti fólksins eru unglingar en inni á milli má sjá eldri menn og konur. „Kynjaskiptingin er nokkuð jöfn. Stelpur eru að koma sterkar inn síðasta áratuginn sem skapendur, höfundar, leikstjórar og teiknarar. Fyrir vikið er mikið góðum kvenkyns persónum í þessum sögum. Það leiðir til þess stelpur sækja meira í þetta,“ segir Þórhallur. 

Þá segir hann að útgefendur í þessum geira hafi áttað sig á því að stelpur eru meirihluti lesenda af bókmenntum. „Það er jafnast bilið í nördaheimum sem annars staðar,“ segir Þórhallur. 

Hann segir þó að enn sé nokkur skipting á því hvað kynin lesa. Strákarnir lesa meira hasarmyndasögur en stelpur séu meira fyrir rómantískar kómedíur. „En lesendahópurinn skarast meira en hann gerði. Stelpurnar lesa að vísu meira strákaefni en strákar stelpuefni. Þeir eru meira fyrir hefðbundnara efni. Þó eru einhverjir sem lesa kvenlægari bókmenntir," segir Þórhallur. 

Stelpurnar klæða sig frekar upp

Hann segir að stelpurnar séu duglegri við að klæða sig upp í búninga á þessum degi. Gjarnan velja þær fyrirmyndir úr japönskum myndasögum til þess að klæða sig eftir. „En það er líklega algengast að fólk mæti sem sem karakter úr Star wars,“ segir Þórhallur. 

Hann segir að hér á landi skiptist fólk ekki í hópa eftir því hvaða sögur heilli þá. Það sé algengara í Bandaríkjunum þar sem stundum hafi ólíkir hópar horn í síðu þeirra sem séu aðdáendur annarra myndasaga. „Hér á landi er meiri nördísk samkennd,“ segir Þórhallur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert