Ákveðið hefur verið að starfsmaður Landspítalans, sem villti á sér heimildir sem hjúkrunarfræðingur án þess að hafa tilskilð leyfisbréf, verði kærður til lögreglu. Þetta staðfestir Björn Zoëga forstjóri Landspítala.
Björn gat ekki svarað því hvar málið væri statt og hvort kæran hafi þegar verið lögð fram eða ekki, en staðfesti að eftir skoðun lögfræðinga spítalans hafi niðurstaðan orðið sú að kæra starfsmanninn.
Aðspurður segist Björn ekki geta sagt til um það hvort starfsmaðurinn eigi nokkurn tíma afturkvæmt á Landspítala ljúki hann hjúkrunarfræðiprófinu og fái réttindin. „Það veit maður aldrei, það hljómar ekki líklegt en verður bara að koma í ljós.“
Einsdæmi á spítalanum
Eins og mbl.is hefur sagt frá er um að ræða starfsmann krabbameinsdeildar sem lokið hafði um tveggja ára námi í hjúkrunarfræði, en fullt nám er fjögur ár. Málið komst upp eftir að Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga uppgötvaði misræmi við samanburð á innborgunum launagreiðenda við félagatal. Í ljós kom að frá Landspítala höfðu ítrekað borist launagreiðslur vegna starfsmanns sem ekki hefur starfsleyfi og var ekki meðlimur í Fíh.
Málið mun vera einsdæmi á Landspítala. Starfsmaðurinn hafði oftar en einu sinni verið beðinn um að skila inn tilskyldu hjúkrunarleyfi en það var ekki gert. Eftir því sem mbl.is kemst næst var starfsmaðurinn vel liðinn og er ekki til þess vitað að viðkomandi hafi gert alvarleg mistök í starfi.