„Málið hefur verið hjá lögreglunni síðan í febrúar. Reyndar hefur lögreglan vitað af þessu máli mun lengur en þeir fengu málið til sín þá,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, í samtali við mbl.is en stórfelldur þjófnaður úr verslun IKEA við Kaupvang í Garðabæ hefur verið kærður til lögreglu.
Talið er að brotin nái sex ár aftur í tímann og fólust þau einkum í því að strikamerki á ódýrum vörum voru sett á dýrar vörur og þeim síðan skilað fyrir inneignarnótur. Þær voru síðan notaðar til þess að kaupa vörur eða þeim breytt í gjafabréf sem hægt var að koma í verð. Fyrst var fjallað um málið í DV í dag.
Þórarinn segir að lögreglan hafi verið látin vita af málinu um ári áður en það var kært en bæði hafi hún talið að afla þyrfti frekari sönnunargagna áður en hægt yrði að taka það til formlegrar rannsóknar og einnig hafi það tafist að hefja vinnu við það vegna annarra mála. Grunur vaknaði fyrst um að ekki væri allt með felldu að sögn Þórarins í nóvember 2011 þegar skil á vörum stemmdu alls ekki við sölu á sömu vörum.
Vörum skilað sem aldrei voru seldar
„Málið kemur upp 2011. Þá áttum við okkur á því að það er eitthvað óeðlilegt í gangi. Það er sem sagt verið að skila inn vörum sem hafði ekki selst svo mikið sem eitt stykki af. Það er kveikjan á þessu og þó þetta liggi mjög ljóst fyrir í dag þá var það ekki alls ekki svo í byrjun. Þetta er bara eins og púsluspil þar sem maður sér ekki heildarmyndina fyrr en maður er búinn að klára það,“ segir hann.
Þórarinn segir brotin ljós en um 43 skipti sé allavega að ræða í tilfelli þess einstaklings sem hefði leikið þennan leik oftast. Mest hafi þetta verið gert þrisvar á dag. Um hámenntað fólk sé að ræða meira eða minna sem ætti að hafa það sæmilega gott. Það skrítnasta segir hann að fólk hafi getað fengið maka sína með sér í þetta, foreldra og systkini. „Þetta er núna bara í höndunum á lögreglunni og vonandi vinna þeir þetta bara fljótt og vel.“
„Eitthvað sem við viljum helst ekki gera“
Spurður til hvaða aðgerða IKEA hafi gripið til þess að sporna við svona löguðu segir Þórarinn að fyrirtækið hafi lagt áherslu á það að gera viðskiptavinum sínum auðvelt með að skila vörum frá því og ekki viljað þrengja að þeim í þeim efnum. Ekki hafi því verið krafist kvittunar enda ekki aðrir sem selji IKEA-vörur í landinu. Þó hafi verið tekin niður kennitala þeirra sem hafa skilað vörum.
„Þarna er verið að misnota sér þetta. Og það versta sem gæti gerst vegna þess máls er að við þyrftum að þrengja þetta sem bitnaði á öllum öðrum og það er eitthvað sem við viljum helst ekki gera,“ segir hann. Eftir því sem þetta mál hafi hins vegar stækkað hafi tvær grímur þó runnið á fólk. Eitt af því sem hafi verið gert sé þó að taka fyrir að hægt sé að breyta inneignarnótum, sem séu á kennitölu, í gjafabréf nema í undantekningartilfellum.