Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt til að tvö opnunarskilyrði verði sett fyrir því að hafnar verði viðræður um sjávarútvegsmál í tengslum við umsókn Íslands um inngöngu í sambandið. Þetta kemur fram í rýniskýrslu framkvæmdastjórnarinnar þar sem löggjöf Íslands á sviði sjávarútvegsmála er borin saman við samsvarandi löggjöf Evrópusambandsins.
Rýniskýrslan hefur enn ekki verið gerð opinber eða afhent íslenskum stjórnvöldum en fram kemur í áætlun framkvæmdastjórnarinnar um framkvæmd sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins fyrir árið 2013 að hún hafi lagt til tvö opunarskilyrði. Þar segir að framkvæmastjórnin hafi skilað rýniskýrslunni til ráðherraráðs sambandsins í apríl á síðasta ári ásamt tillögum að þessum tveimur opnunarskilyrðum. Ekki kemur fram hvað felst í þeim en slík skilyrði, sem Evrópusambandið getur sett bæði fyrir opnun og lokun einstakra viðræðukafla, snúa gjarnan að einhvers konar stjórnkerfisbreytingum eða undirbúningi fyrir þær.
Ekkert bólar á rýniskýrslunni
Rýniskýrslan var unnin í kjölfar þess að Evrópusambandið ákvað sumarið 2010 að hefja formlegar viðræður um inngöngu Íslands í sambandið og er undanfari viðræðna um sjávarútvegsmál. Rýniskýrslur um alla aðra málaflokka sem viðræðurnar við Evrópusambandið ná til hafa þegar verið gerðar opinberar og flestar fyrir margt löngu. Ekkert hefur hins vegar bólað á skýrslunni um sjávarútvegsmálin og hafa engar skýringar fengist á því, hvorki frá sambandinu sjálfu eða íslenskum stjórnvöldum. Hins vegar hefur komið fram hjá Evrópusambandinu að viðræðunum ljúki þegar bæði Ísland og sambandið séu reiðubúin til þess.
Steingrímur J. Sigfússon, fráfarandi atvinnuvegaráðherra, sagði á Alþingi 17. desember síðastliðinn spurður um málið að af Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins, að málið sæti fast hjá Evrópusambandinu. „En í þessu tilviki að minnsta kosti er klárlega töfin Evrópusambandsmegin og við komumst ekki áfram með sjávarútvegskaflann fyrr en að Evrópusambandið opnar sína rýniskýrslu og við sjáum þar á spilin, sjáum hvort þar verða opnunarskilyrði eða annað í þeim dúr.“
Grundvallarkröfur ESB liggja fyrir
Steingrímur var aftur spurður um málið í lok febrúar síðastliðins af Illuga Gunnarssyni, þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, og sagði hann þá mjög mikilvægt að fá úr því skorið hvaða samningar fengjust um sjávarútvegsmál í viðræðum við Evrópusambandið um inngöngu Íslands. Þá hvort um yrði að ræða einhver opnunar- eða lokunarskilyrði vegna málaflokksins eða hvort hugsanlega næðust engir samningar vegna þess að of mikið bæri á milli sambandsins og Íslands í þeim efnum.
Þess má geta að framkvæmdastjórn Evrópusambandið hefur þegar sett fram þær grundvallarkröfur sem gerðar eru til Íslands í sjávarútvegsmálum gangi landið í sambandið en í greiningarskýrslu sem fylgdi áliti framkvæmdastjórnarinnar á umsókn Íslands í febrúar 2010 kemur fram að Íslendingar verði að fallast á meginregluna um fulla yfirstjórn Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum og að fiskiskip frá ríkjum sambandsins hafi frjálsan aðgang að miðunum við Ísland í samræmi við sameiginlega sjávarútvegsstefnu þess.