Hvalveiðar ekki skaðað ferðaþjónustuna

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

„Hvenær ætlar ferðaþjónustan að hætta þessari ómálefnalegu gagnrýni sinni á hvalveiðar?“ spyr Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í kvöld í tilefni af því að stjórn Ferðamálasamtaka Íslands sendi frá sér harðorð mótmæli fyrr í dag gegn þeirri ákvörðun að hvalveiðar verði stundaðar í sumar.

Hann bendir á að mótmæli ferðaþjónustunnar gegn hvalveiðum hafi staðið yfir linnulaust í þann áratug sem liðinn sé frá því að veiðarnar hófust hér við land að nýju eftir að hafa verið bannaðar 20 árin þar á undan. Ferðaþjónustan hafi sagt að hvalveiðarnar myndu stórskaða hana.

„Reynslan er ólygnust í þessu máli eins og flestu,“ segir Jón og bendir á að fjölgun ferðamanna sé stöðug og hvalaskoðun blómstri á sama tíma og hvalkjöt sé á matseðlum flestra veitingastaða og vinsælt hjá útlendingum.

„Væri ekki nær fyrir ferðaþjónustuna að leggja vinnu í að útskýra fyrir ferðamönnum sjálfbærni veiða okkar sem byggjast á varlegu mati vísindamanna og að afurðirnar fari að mestu til manneldis?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert