Mistök gerð hjá fyrirtækjaskrá

Lýður Guðmundsson og Bjarnfreður Ólafsson í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Lýður Guðmundsson og Bjarnfreður Ólafsson í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Rósa Braga

Forstöðumaður fyrirtækjaskrár viðurkenndi við aðalmeðferð í máli sérstaks saksóknara gegn Lýði Guðmundssyni og Bjarnfreði Ólafssyni að starfsmaður skrárinnar hefði gert mistök við afgreiðslu tilkynningar um hlutafjárhækkun í Exista í desember 2008 og að vinnubrögðum hafi verið breytt í kjölfarið.

Aðalmeðferð í málinu hélt áfram í morgun. Skúli Jónsson, sem bar titilinn forstöðumaður fyrirtækjaskrár í desember 2008, kom fyrir dóminn í morgun og gaf skýrslu. Hann sagði að þegar tilkynningar um hlutafjárhækkun berist lesi sérfræðinga stofnunarinnar yfir þær. „Þessi tilkynning kom síðdegis og það var lögð áhersla á að afgreiða hana strax. Sérfræðingar voru ekki tiltækir og sá starfsmaður sem fékk þetta til sín var ekki sérfræðimenntaður,“ sagði Skúli.

Hann sagði að þar sem tilkynningin hefði komið frá stórri lögfræðistofu, Logos, og sérfræðiskýrsla frá stórri endurskoðendastofu, Deloitte, hafi hún verið talin mjög trúverðug. „Þetta leit út eins og vönduð tilkynning og því var þetta skráð.“

Verjandi Bjarnfreðs spurði þá hver viðbrögðin hefðu verið ef sérfræðingur fyrirtækjaskrá hefði lesið yfir gögnin. „Þessu hefði verið hafnað og viðkomandi félagi gefinn kostur á leiðrétta gögnin. Sá sem sendi tilkynninguna hefði þá þurft að koma með rétt gögn. Það sem hefði þurft að koma fram er að 50 milljarðar hefðu verið greiddir fyrir þessa 50 milljarða hluti. Ef hann hefði getað sýnt fram á þetta hefði tilkynningin verið afgreidd.“

Hann sagði jafnframt að skýrsla Deloitte, sem fylgdi tilkynningunni, hefði haft yfirbragð sérfræðiskýrslu og í raun óvenju vandaðrar sérfræðiskýrslu. Þegar ófaglærður starfsmaður les yfir hana og sér skýrsluna setta upp nákvæmlega eins og á að gera, skýrslan komandi frá Deloitte, þá hafi hún lagt fullt traust á tilkynninguna.

Ennfremur sagði Skúli að tilefni þess að fyrirtækjaskrá fór að skoða tilkynninguna aftur hálfu ári eftir að hlutafjárhækkunin var skráð hafi verið, að blaðamaður hafi hringt og spurt út í málið. Skúli hafi þá skoðað tilkynninguna. „Ég sá að þetta var fjarri því að vera í lagi þannig að ég lauk samtalinu við blaðamanninn og hafði samband við æðsta mann stofnunarinnar og við fórum yfir það hvað nauðsynlegt var að gera.“

Aðalmeðferðin heldur áfram en dagskránni hefur verið breytt þannig, að málflutningur fer fram í fyrramálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka