Ný ríkisstjórn ljúki ESB-viðræðum

AFP

Forsvarsmenn Já Ísland skora á næstu ríkisstjórn landsins að leiða samningaferli Íslands um aðild að Evrópusambandinu til farsælla lykta, klára yfirstandandi viðræður og leggja samning fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar.

Þetta kemur fram í tilkynningu. Vísar er til þess að skoðanakannanir hafi á liðnum mánuðum sýnt að mikill meirihluti þjóðarinnar vilji klára viðræðurnar, eða rúm 60% þeirra sem afstöðu tóku í könnunum Gallup (sem var gerð fyrir Já Ísland dagana 7. - 15. mars sl.) og Félagsvísindastofnunar (könnunin var gerð dagana 18. mars til 4. apríl sl.).

„Skuldir, vextir, verðbólga, vöruverð, staða ríkissjóðs, gjaldmiðill og stöðugleiki eru mál sem mjög voru til umræðu fyrir kosningar til Alþingis. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn vinna nú að myndun nýrrar ríkisstjórnar og þeirra bíður því það verkefni að taka á þessum málum og finna á þeim farsæla lausn.

Mikilvægt er að loka engum dyrum á komandi kjörtímabili sem geta varðað leið að úrlausn til langrar framtíðar. Aðild að Evrópusambandinu er ein vænlegra leiða sem gæti leitt til nýrra tækifæra til þess að takast á við margt af því sem leysa þarf,“ segir í tilkynningu sem þau Jón Steindór Valdimarsson, formaður Já Ísland, og Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna, sendu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert