Sakamálum fækkar um 39%

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði mbl.is/Ómar Óskarsson

Sakamálum sem komu til kasta héraðsdómstólanna í landinu fækkaði í fyrra frá árinu 2011 en þau voru samtals 5.219 talsins árið 2011 en 3.179 talsins í fyrra. Er það fækkun um 39,1%. Ákærur sérstaks saksóknara voru 47 talsins í fyrra en 6 árið 2011. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársskýrslu dómstólaráðs.

Árið hefur að miklu leyti einkennst af rekstri dómsmála tengdum efnahagshruninu og álagi þeim fylgjandi. Fjöldi ágreiningsmála vegna gjaldþrotaskipta, sem mörg eiga rætur sínar að rekja til föllnu bankanna , er meiri á liðnu ári en árið á undan. Mörg þessara mála eru flókin, eiga sér ekki fordæmi, varða mörg hver mikla hagsmuni og kalla í sumum tilfellum á fjölskipaðan dóm.

Kostnaður vegna sérfróðra meðdómsmanna hefur vaxið ár frá ári og hefur aldrei verið hærri en árið 2012. Á sama tíma hafa dómstólarnir þurft að hagræða í rekstri sínum og er nú svo komið að hlutfall launa og húsnæðiskostnaðar af heildar rekstrarútgjöldum er komið upp í 92%, sem vart getur talist ásættanlegt,“ segir í skýrslu dómstólaráðs fyrir árið 2012.

Í skýrslu dr. Gunnars Helga Kristinssonar , prófessors við Háskóla Íslands, um stjórnsýslu dómstólanna , sem kom út í maí 2011, kemur m.a. fram „að helsta ógnunin sem dómstólar standa frammi fyrir á Íslandi árið 2011 er krafan um sparnað í opinberum rekstri samhliða auknu álagi í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008.

Krafan um sparnað ógnar ekki bara stjórnunarlegu sjálfstæði þeirra, með því að gefa fjárveitingarvaldinu aukin tækifæri til inngripa, heldur einnig afköstum þeirra.“

Íljósi þess háa hlutfalls sem launagreiðslur og fastur húsnæðiskostnaður eru af heildarútgjöldum héraðsdómstólanna er lítið sem ekkert svigrúm eftir til þess að sinna nauðsynlegum þáttum í innri starfsemi héraðsdómstólanna, segir í ársskýrslunni.

„Er það ekki síst áhyggjuefni í ljósi þess sérstaka ástands sem ríkt hefur í starfsumhverfi héraðsdómstólanna á liðnum árum og þeirra auknu krafna sem gerðar hafa verið til dómstólanna á sama tíma,“ segir í ársskýrslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert