Aðhald þarf, verði loforð efnd

mbl.is/Júlíus

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands mun taka ákvörðun um stýrivexti í næstu viku og verður niðurstaða tilkynnt miðvikudaginn 15. maí. Verði mynduð ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks og verði fullar efndir á kosningaloforðum, er ljóst að peningastefnunefnd þarf að bregðast hart við með auknu aðhaldi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá hagfræðideild Landsbankans, Hagsjá.

Þar segir að þeir flokkar sem nú ræði saman um myndun ríkisstjórnar hafi báðir haft uppi loforð sem að öðru óbreyttu gætu falið í sér töluverða tilslökun í ríkisfjármálum með tilheyrandi verðbólguhvetjandi áhrifum.„Verði fullar efndir á þeim loforðum sem  snúa að skattalækkunum, skuldaniðurfellingum og kjaraleiðréttingum, er ljóst að sjálfstæð  peningastefnunefnd yrði að bregðast hart við með auknu aðhaldi í peningastefnunni. Í ljósi þess að nefndin kemur aftur saman í júní verður að teljast verulega líklegt að hún ákveði að bíða og sjá stefnu nýrrar ríkisstjórnar áður en gripið verður til hugsanlegra mótvægisaðgerða.“

Hagfræðideild Landsbankans væntir þess að stýrivöxtum verði haldið óbreyttum að þessu sinni og að þar ráði mestu óvissan um myndun nýrrar ríkisstjórnar og hvað hún ætli sér í ríkisfjármálum á  kjörtímabilinu. 

Í  tilkynningunni segir að eins og svo oft áður togist á rök fyrir bæði hækkun og lækkun vaxta. „Það sem helst styður vaxtalækkun er að verðbólgan hefur hjaðnað töluvert á síðustu mánuðum og mælist nú 3,3%, sem er vel innan efri vikmarka verðbólgumarkmiðsins. Lægri verðbólga en óbreyttir vextir þýðir að öðru óbreyttu að raunstýrivextir hafa hækkað og aðhald peningastefnunnar því aukist á þann mælikvarða.“

Þá er bent á að gengi krónunnar hefur styrkst verulega frá áramótum sem boði gott fyrir þróun verðbólgunnar á komandi mánuðum, þ.e.a.s. ef styrkingin gangi ekki jafnhart aftur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert