Starfsmenn fjölmiðlafyrirtækja eru óánægðastir í starfi sínu en mesta ánægjan með starfsaðstæður er í fjármálageiranum. Allt að 25% starfsmanna íslenskra fyrirtækja eru óvirkir í starfi og sjá fyrirtækið ekki sem sinn framtíðarvinnustað og skapa þar úlfúð.
Þetta kemur fram í könnuninni „Ísland í vinnunni“ sem er gagnagrunnur sem geymir upplýsingar um viðhorf starfsmanna fyrirtækja og stofnana til starfsumhverfis síns. Könnunin nær til 4.000 einstaklinga á vinnumarkaði.
Þegar horft er til einstakra starfsstétta leiðir könnunin í ljós að einna óánægðastir eru starfsmenn fjölmiðlafyrirtækja en þar eru rétt tæplega 30% óvirkir og stór hluti vill skipta um starfsvettvang. Mest ánægja er hins vegar innan fjármálageirans en þar bera 7 af hverjum 10 starfsmönnum mikið traust til yfirmanna sinna.
Þeir sem ekki finna sig í starfi kosta fyrirtæki háar fjárhæðir árlega.
Þeir þættir sem teljast hafa mest áhrif á virkni eru samband starfsmanns og næsta yfirmanns, trú á yfirstjórnendur fyrirtækisins og hvort starfsmaðurinn sé stoltur af því að vinna fyrir fyrirtækið.