„Frysting lána var gagnslaus“

Árið 2012 voru 505 fasteignir seldar nauðungarsölu hjá embætti sýslumannsins …
Árið 2012 voru 505 fasteignir seldar nauðungarsölu hjá embætti sýslumannsins í Reykjavík. mbl.is/Árni Sæberg

„Frysting lána hefur ekki gagnast neinum í sjálfu sér og bara gert málin verri,“ segir Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs. Hann segir að uppboðum á fasteignum sé að fjölga. Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, hefur sömu sögu að segja.

Ólafur Helgi segir að það sem af er þessu ári sé búið að selja 131 fasteign í hans umdæmi. Þetta sé mikið, sérstaklega þegar haft sé í huga að engin fasteign var seld í janúar. Frá áramótum hafi borist 590 uppboðsbeiðnir til embættis sýslumannsins á Selfossi. Ólafur Helgi segir að um sé að ræða íbúðir, atvinnuhúsnæði, sumarbústaði og sumarbústaðalóðir.

Uppboðum fjölgar á ný

Næstum 2/3 af öllum sumarhúsum á Íslandi eru á Suðurlandi. Bankarnir voru mjög viljugir til að lána út á sumarhús og lóðir fyrir hrun. Þeir eru núna að fá mikið af þessum lánum í hausinn aftur.

„Tölfræðin hjá okkur bendir til að uppboðsbeiðnum sé að fjölga miðað við fyrri ár. Uppboðin náðu hámarki 2011. Það dró úr þeim í fyrra, en nú er þeim að fjölga aftur. Þetta má rekja til þess að nú er frystingu lána að ljúka og síðan líður oft eitt ár og þá eru menn komnir í uppboðsferli. Aukningin milli ára er 10-20%. Ég get ekki útilokað að uppboð í ár verði fleiri en árið 2011. Það er ákveðinn kúfur sem er eftir,“ segir Sigurður.

Eftir frystingu hafa lánin hækkað og eignastaðan versnað

Eftir hrun var gripið til ýmissa aðgerða til að verja hag lántaka. Stór hluti þeirra voru skammtímaaðgerðir sem hafa verið að renna út á síðustu misserum. Sigurður segir að frysting lána hafi verið hugsuð til að gefa lántökum svigrúm til að ná vopnum sínum. „Mikið af þessum bráðabirgðaaðgerðum voru ekki hannaðar til að taka á vandanum heldur voru þær hannaðar með það í huga að vonandi hyrfi vandinn, þ.e.a.s. að vonandi myndu þeir sem höfðu misst vinnuna fá vinnu og tekjur komast í fyrra horf og þar með gæti fólk farið að standa undir skuldbindingum sínum. Það hefur hins vegar ekki endilega gengið eftir.“

Frysting lána þýðir að ekki er greitt af lánum á frystingartímabilinu. Höfuðstóll lánanna heldur hins vegar áfram að hækka. „Þegar þessu tímabili lýkur er skuldastaðan orðin verri, nettóeignastaðan orðin mun verri og greiðslubyrðin orðin mun þyngri. Aðstæður þeirra sem fara í frystingu hefðu þurft að batna umtalsvert mikið til að menn geti ráðið við lánin eftir frystingu. Það hefur yfirleitt ekki gerst,“ segir Sigurður.

Lánin fara í vanskil eftir að frystingu lýkur

Samkvæmt lögum geta lántakendur óskað eftir heimild til að frysta lán í allt að þrjú ár. Sigurður segir að margir sem séu að missa eignir sínar nú séu í þeirri stöðu að þessi þriggja ára frysting hafi verið að taka enda. „Því miður er það þannig að flest þessi mál sem hafa verið í frystingu fara fljótlega í vanskil og síðan í venjulegt fullnustuferli. Málin batna aldrei við að fara í frystingu. Þau verða bara verri.“

Sigurður tekur fram að á sama tíma og uppboðum sé að fjölga sé vanskil hjá Íbúðalánasjóði að minnka.

Sumir sem fóru í 110%-leiðina náðu að minnka við sig

Sigurður segir að þó að frystingar hafi ekki leyst nein mál þá hafi 110%-leiðin gagnast ákveðnum hópi manna. Þessi leið hafi verið hugsuð fyrir fólk sem býr í yfirveðsettum eignum, en margir sem voru í þessari stöðu gátu sig hvergi hreyft því að þeir gátu ekki selt húsnæði þegar söluverðið dugði ekki fyrir höfuðstól lánanna. „Það er ljóst að margir hafa notað þessa leið til að minnka við sig eign, selja eða fara í leiguhúsnæði. Þetta hefur því nýst mörgum.“

Fólk bíður eftir úrræðum nýrrar ríkisstjórnar

Flokkarnir sem nú ræða myndun nýrrar ríkisstjórnar hafa boðað nýjar aðgerðir fyrir skuldsett heimili. Sigurður var spurður hvort fólk sem væri að missa íbúðir sínar væri ekki að horfa til þess þegar mál þeirra væru til skoðunar.

„Jú, við finnum það mikið að menn eru að bíða og sjá hvort að það bjóðist ekki eitthvað betra en 110% leiðin eða önnur þau opinberu úrræði sem enn eru í gangi hjá Umboðsmanni skuldara.

Þegar menn eru komnir eru í uppboðsferli er vandinn hins vegar orðinn það stór að það er ekki margt hægt að gera. Það er ekki víst að ný úrræði tækju á slíku. Það eru engar heimildir til að stoppa innheimtuferli á grundvelli þess að von sé á nýjum úrræðum af hálfu stjórnvalda. Eina leiðin til að stoppa uppboðsferli er að greiða inn á skuldina og gera upp vanskilin. Það er eina leiðin sem er fær í dag.“

Uppboð vegna vangreiddra fasteignagjalda

Uppboð á eignum koma ekki bara til vegna vanskila á íbúðalánum. Vanskilin geta verið af öðrum toga. T.d. þurfa sveitarfélögin að innheimta fasteignagjöld. Eftir hrun var sett sú tímabundna regla að ekki mátti krefjast uppboðs vegna vangreiddra fasteignagjalda sem náðu allt að fjögur ár aftur í tímann. Nú er búið að stytta þennan tíma í tvö ár. Þetta er eitt af því sem veldur fjölgun uppboða nú.

Fyrir hrun var mikið byggt og mikið lánað.
Fyrir hrun var mikið byggt og mikið lánað. mbl.s/Ómar Óskarsson
Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs.
Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs. mbl.is/Ernir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert