Breskir fiskkaupendur hafa af því nokkrar áhyggjur að fríverslunarsamningur Íslands og Kína kunni að hafa áhrif á framboð á íslenskum fiski í Bretlandi og verðlag í þeim efnum. Þetta kemur fram á fréttavefnum Fishupdate.com.
Fríverslunarsamningurinn var sem kunnugt er undirritaður um miðjan síðasta mánuð en hann tekur ekki síst til viðskipta með fiskafurðir. Búist er við að slík viðskipti á milli Íslands og Kína eigi eftir að aukast mjög fyrir tilstuðlan samningsins.
Fram kemur í fréttinni að aukin sala á íslenskum fiski til Kína kunni að draga úr framboði til Bretlands og annarra Evrópuríkja sem aftur kunni að þýða að verð á fiskafurðum hækki en mikil eftirspurn sé í Kína eftir íslenskum fiski. Þannig kaupi Kínverjar til að mynda mikið af makríl frá Íslandi.