Raforkuafhending skert fyrir norðan og austan

Landsnet gerir áfram ráð fyrir skerðingum á næstu vikum til …
Landsnet gerir áfram ráð fyrir skerðingum á næstu vikum til kaupenda á skerðanlegrum flutningi raforku

Síðustu daga hef­ur Landsnet þurft að skerða af­hend­ingu raf­magns til nærri allra kaup­enda svo­kallaðrar skerðan­legr­ar raf­orku á Norður- og Aust­ur­landi og er allt út­lit fyr­ir að það ástand muni vara áfram í þess­um lands­hlut­um næstu vik­urn­ar. 

Þetta kem­ur fram í til­kynn­ingu frá Landsneti. Þar seg­ir, að ástæðan sé lé­leg­ur vatns­bú­skap­ur stærstu vatns­afls­virkj­ana í lands­hlut­un­um og tak­mörkuð flutn­ings­geta Byggðalínu til að flytja raf­magn frá Suðvest­ur­landi til Norðaust­ur­lands.

„Lág vatns­staða í lón­um stærstu vatns­afls­virkj­an­anna fyr­ir norðan og aust­an er ástæða þess að nær all­ir not­end­ur skerðan­legr­ar raf­orku á Norður- og Aust­ur­landi hafa frá aðfar­arnótt síðastliðins mánu­dags, 6. maí, þurft að sætta sig við skerðingu á af­hend­ingu raf­magns. Áfram er bú­ist við lé­leg­um vatns­bú­skap í þess­um lands­hlut­um þar sem ekki er út­lit fyr­ir leys­ingu og snjó­bráðnun að nokkru marki á næst­unni.  Því ger­ir Landsnet áfram ráð fyr­ir skerðing­um á næstu vik­um til kaup­enda á skerðan­legr­um flutn­ingi raf­orku,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Þá seg­ir að helstu not­end­ur skerðan­legs flutn­ings séu raf­hita­veit­ur og iðnfyr­ir­tæki. Stærsti hluti iðnfyr­ir­tækja séu fisk­vinnslu­fyr­ir­tæki en raf­orku­notk­un þeirra hafi auk­ist veru­lega á síðustu miss­er­um vegna frek­ari raf­væðing­ar en verk­smiðjurn­ar hafi unnið að því að hætta að mestu notk­un olíu. 

„Frá aðfaranótt mánu­dags hef­ur sam­an­lögð aflskerðing á Norður- og Aust­ur­landi verið allt að 60 MW, mest­megn­is á Aust­ur­landi, en það er u.þ.b. þriðjung­ur af heild­araflþörf dreifi­veitna á þess­um svæðum. Fyr­ir­séð er að raf­orku­notk­un fisk­vinnslu­fyr­ir­tækja muni aukast enn frek­ar til lengri tíma litið en erfitt verður á næstu árum að anna þeirri notk­un á mestu álags­tím­um og/​eða þegar flytja þarf mikið raf­magns milli lands­hluta,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

„Til að anna af­hend­ingu for­gangs­orku fyr­ir norðan og aust­an er flutn­ings­geta Byggðalín­unn­ar nýtt til fulls.  Jafn­framt hef­ur Landsnet gripið til þess ráðs að fresta tíma­bundið öll­um viðhalds­verk­efn­um sem fyr­ir­huguð voru á raf­orku­kerf­inu í þess­um mánuði, til að tryggja full af­köst kerf­is­ins og þar með af­hend­ingarör­yggi for­gangs­orku á þess­um landsvæðum. Vegna mjög tak­markaðrar flutn­ings­getu Byggðalín­unn­ar er hins veg­ar lítið svig­rúm til að bregðast við með um­fangs­mikl­um raf­orku­flutn­ing­um milli lands­hluta þótt ork­an sé vissu­lega til staðar.  Landsnet hef­ur und­an­far­in ár unnið að und­ir­bún­ingi styrk­ing­ar flutn­ings­kerf­is­ins en slíkt tek­ur lang­an tíma.  Staðan sem nú hef­ur komið upp sýn­ir vel hve mik­il­vægt er að hraða slík­um aðgerðum eins og kost­ur er,“ seg­ir enn­frem­ur




mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert