Tankurinn féll úr eins metra hæð

Olíutankurinn sem notaður var til að flytja olíu frá Bláfjallaskála að Þríhnúkagíg féll til jarðar úr um eins metra hæð. Nokkrar sprungur komu á tankinn við óhappið og er hann gjörónýtur. Tankurinn er úr trefjaplasti.

Björn Ólafsson, einn af stofnendum Þríhnúka, segist gera sér vonir um að takist að ná upp allri olíunni, en um 600 lítrar af olíu voru í tanknum. Olían lak niður í malarplan neðan við Bláfjallaskála. Planið er hallandi og rann olían niður í átt að snjóskafli við planið. Allri olíublautri möl var mokað upp úr planinu og hún flutt á bílum í móttökustöðina í Álfsnesi. Frost er í jörðu og því kemst olían ekki djúpt ofan í jarðveginn.

Björn og bræðurnir Einar og Árni Stefánssynir hafa tekið á móti ferðamönnum við Þríhnjúka síðustu þrjú sumur. Reglulegar ferðir í gíginn eiga að hefjast 15. maí. Í dag átti að flytja allan búnað með þyrlu að gígnum, en enginn akvegur er að honum. Búið var að flytja 2.000 lítra tvöfaldan stáltank á staðinn, en auk þess var verið að flytja, rafstöðvar, vatn, körfur og fleira. Stáltankurinn var fluttur tómur að gígnum. Olían var flutt í 600 lítra trefjaplasttanki að stáltankinum.

Björn segir að olían sé notuð er á rafstöðvar sem sjái um lýsingu og að knýja lyftur sem hellamennirnir nota við að skoða hellinn.

Óljóst hvað fór úrskeiðis

Björn segist ekki vita nákvæmlega hvers vegna tankurinn féll til jarðar. Engin bönd hafi slitnað, en hugsanlega hafi búnaður við krókana gefið sig. Það ætti eftir að rannsaka þetta betur. Hann segir að notaður hafi verið lítill tankur í flutningana til að tryggt sé að þyrlan réði örugglega við að flytja olíuna.

Björn segir að staðið hafi verið eins að þessum flutningum í ár og undanfarin ár. Eini munurinn sé að notast hafi verið við annað þyrlufyrirtæki. Hann segir að Heilbrigðiseftirlitið og Orkuveita Reykjavíkur hafi vitað af því að flutningarnir ættu að fara fram í dag. Strax eftir óhappið hafi verið haft samband við eftirlitsaðila og þeim gerð grein fyrir því sem gerðist. Heilbrigðiseftirlit Kópavogs og Hafnarfjarðarsvæðis hafi sent menn á staðinn sem hafi fylgist með hreinsunarstarfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert