Casanova fær nýja peysu

Casanova er hér í nýju peysunni.
Casanova er hér í nýju peysunni.

Kiðlingurinn Casanova er kominn í nýja peysu þar sem hann er vaxinn upp úr þeirri gömlu.  Eins og mbl.is sagði frá um liðna helgi var Casanova klæddur í ullarpeysu til þess að halda á honum hita á meðan hann var veikur. Hún er nú orðin of lítil.

„Hún stóð honum á beini, þannig að það þýddi ekkert að láta hann vera í gömlu peysunni áfram,“ segir Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir geitabóndi á geitfjársetrinu á Háafelli.

Peysan sem Casanova er í nú var gefin elstu dóttur Jóhönnu fyrir um 35 árum.

Mun brátt ekki þurfa á peysu að halda

„Ég hef notað hana á öll mín 6 börn og svo endar hún líklega þarna á Casanova,“ segir Jóhanna. Eitthvað virðist Casanova sakna gömlu peysunnar og að sögn Jóhönnu var hann kominn úr peysunni í morgun. Hann var snarlega klæddur í peysuna aftur. „Þetta er ekki ullarpeysa, kannski er hann ekki ánægður með það. En ætli hún hafi ekki bara togast af honum einhvern veginn,“ segir Jóhanna.

Hún segir að ullin sé öll að koma til og brátt muni hann ekki þurfa á peysu að halda til þess að halda á sér hita. „Hann er að fá fallegan feld en það tekur tíma áður en hún verður nægilega síð til þess að ullin dugi honum,“ segir Jóhanna.

Casanova í gömlu bleiku peysunni sinni.
Casanova í gömlu bleiku peysunni sinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert