Um þriðjungur Heiðmerkurvegar er ófær. Hefur þessum vegkafla, sem er Garðabæjarmegin í Heiðmörk, ekki verið sinnt í um tvö ár eftir að ríkið ákvað að afhenta sveitarfélögunum Reykjavík og Garðabæ vegina. Margir voru á ferð í Heiðmörk í dag en þurftu að snúa við vegna ófærðar.
Sveitarfélögin höfnuðu viðtöku vegarins og hefur málið verið þrætuepli á milli ríkisins og þeirra síðan.
Pólitískt þrætuepli opinberra aðila
Að sögn Helga Gíslasonar, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur, hefur verið leitað til innanríkisráðuneytisins vegna málsins en allir aðilar standa á sínu og enginn vill sinna veginum.
„Þetta er vegur sem ríkið átti og hirti um. Fyrir tveimur árum síðan ákvað Vegagerðin að afhenda Reykjavík og Garðabæ veginn frá sitthvorum enda. Hvorugt sveitarfélagið hefur þegið veginn. Nú er staðan sú að enginn vill gera neitt. Þetta er pólitískt þrætuepli á milli opinberra aðila,“ segir Helgi.
Allir standa á sínu
Djúp för eru í veginum sem er ónýtur. Ófær er sá kafli Heiðmerkurvegar sem er innan Garðabæjar og er hann að sögn Helga um þriðjungur þess vegar sem liggur um Heiðmörk. Umræddur vegkafli er frá Vífilsstöðum og liggur leiðin inn í Hjalladal.
„Þessi vegkafli er ónýtur og ófær, en þess ber að geta að 40% þeirra 500 þúsund manna sem fara inn í Heiðmörk á ári fara um þarna megin frá,“ segir Helgi.
Síðastliðið haust ákvað Reykjavíkurborg að viðhalda þeim vegkafla sem er borgarmegin, þó málið hafi ekki enn verið formlega afgreitt. „Við báðum innanríkisráðherra að leysa málið sem og sveitarfélögin. En það hefur ekki verið gert. Það standa allir á sínu,“ segir Helgi.