Hvetja til efnahagsþvingana gegn Íslendingum

Langreyður skorin í Hvalstöðinni í Hvalfirði.
Langreyður skorin í Hvalstöðinni í Hvalfirði. Ómar Óskarsson

Samtök dýraverndunarsinna hafa sent bréf til ríkisstjórnar Bandaríkjanna þar sem þau eru hvött til þess að beita efnahagsþvingunum gegn Íslendingum vegna hvalveiða. Eins og fram kom í vikunni fara Hvalur 8 og Hvalur 9 til veiða í byrjun næsta mánaðar þegar hvalveiðar hefjast hér á landi að nýju eftir tveggja ára hlé.

Í ár verða einungis veiddar langreyðar og mest af kjötinu fer á Japansmarkað.

Hvatt til aðgerða gegn Íslendingum

Í frétt á vefnum fishnewseu.com kemur fram að nokkur dýraverndunarsamtök hafi sent sameiginlega bréf til utanríkis- og viðskiptaráðuneytis Bandaríkjanna þar sem þess er krafist að gripið verði til efnahagsþvingana gagnvart Íslendingum vegna hvalveiðanna.

Í greininni er haft eftir Susan Millward framkvæmdastjóra Animal Welfare institude (AWI) að tími sé kominn til aðgerða gegn Íslendingum. Vísar hún jafnframt í það að Barrack Obama geti gert það fyrir tilstilli Pelly ákvæðisins sem kveður á um að forsetinn geti gripið til efnahagsþvingana ef vegið er að sjálfbærni fiskistofna.

Diplómatískar leiðir ekki virkað

Þann 15. september árið 2011 sagði Obama að hvalveiðar Íslendinga væru ógn við dýrastofn í útrýmingarhættu en að Bandaríkjamenn myndu notast við diplómatískar leiðir til þess að reyna að sannfæra Íslendinga um að gefa veiðarnar upp á bátinn.

Phil Kline hjá Greene Peace samtökunum segir að nú sé kominn tími til aðgerða og beinir hann þeim orðum til Obama að efnahagsþvinganir séu eina leiðin.

Þá er haft eftir Leigh Henry hjá World Wildlife fund að nauðsynlegt sé að forsetinn standi við utanríkisstefnu sína gegn ólöglegum viðskiptum með dýraafurðir og bætir við; „ef bandarísk stjórnvöld eru tilbúin til þess að biðja aðra um að grípa til aðgerða, þá verða þau að gera slíkt hið sama,“ segir Henry.  

Sjá frétt á Fishnewseu.com

Dýraverndunarsamtök vilja að forseti Bandaríkjanna beiti sér fyrir því að …
Dýraverndunarsamtök vilja að forseti Bandaríkjanna beiti sér fyrir því að setja efnahagsþvinganir á Íslendinga. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka