„Málinu er lokið af minni hálfu“

Erla Bolladóttir við réttarhöldin í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
Erla Bolladóttir við réttarhöldin í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

„Málinu er lokið af minni hálfu. Þessi niðurstaða er það sem ég átti von á. Ég lagði ekki fram kæru af þörf fyrir að einhverjum yrði refsað og ég er viss um að ríkissaksóknari gerði sitt besta í málinu,“ segir Erla Bolladóttir, en ríkissaksóknari hefur komist að þeirri niðurstöðu að rannsókn á kæru Erlu á hendur lögreglumanni fyrir meint kynferðisbrot verið hætt.

Brotin segir Erla að hafi átt sér stað á meðan hún var í gæsluvarðhaldi vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins í Síðumúlafangelsinu 1975- '76. Um hafi verið að ræða tvo menn, annar þeirra káfaði á Erlu að næturlagi, hinn nauðgaði henni. Í samtölum við starfshópinn sem vann nýútkomna skýrslu um Guðmundar- og Geirfinnsmálið nafngreindi hún báða mennina og kærði þann síðarnefnda.

Í tilkynningu ríkissaksóknara um málið segir að kærandi (Erla) hafi ekki tjáð sig ekki við neinn um ætlað kynferðisbrot fyrr en að mörgum árum liðnum, en engin vitni hafi verið að ætluðu broti. 

Hefði aldrei þorað að segja frá þessu á sínum tíma

Erla segir niðurstöðuna ekki koma sér á óvart. „Þetta er það sem ég átti von á. Málið er fyrnt, það var alveg ljóst. Það var líka ljóst að ég tjáði mig ekki um það sem gerðist fyrr en mörgum árum síðar og ég vissi alltaf að það yrði ekkert sannað í þessu. Ef það ætti að fara nákvæmlega í þetta, þá væri tilefni til að skoða af hverju ég tjáði mig ekki um þetta við neinn fyrr en svo löngu seinna. Það var vegna stöðu minnar í samfélaginu á þessum tíma, ástandsins á mér eftir það gríðarlega áfall sem ég varð fyrir í þessa átta mánuði sem ég var í einangrun, auk viðmótsins sem ég mætti alls staðar í samfélaginu. Það var ekki nokkur möguleiki að ég hefði þorað að segja neinum frá því hvað kom fyrir mig af ótta við hvað yrði gert við mig þá. Það var ekki nóg með að ég væri kölluð glæpakvendi, heldur hefði ég líka verið sökuð um að ásaka heiðvirða menn um glæpsamlega framkomu. Ég hefði aldrei getað sagt frá þessu á þessum tíma.“

Slæm skilaboð að kæra ekki

Erla segir að hún hafi kært brotið fyrst og fremst vegna þess að hún vildi taka samfélagslega ábyrgð sem fórnarlamb. „Það hefðu ekki verið góð skilaboð út í samfélagið, þegar það vitnast að ég hafi orðið fyrir þessu, og hafi ákveðið að kæra ekki.“

Muntu halda áfram með málið á einhvern hátt? „Þessu er lokið af minni hálfu og var það í rauninni þegar ég kærði. Það kom mér á óvart hversu miklu það breytti fyrir mig þegar ég kærði, ég upplifði einhvern létti. Loksins hafði einn  sem ég upplifði, einn laus endi hafði verið hnýttur og þessi niðurstaða breytir því ekki.

Viðbúið að hann myndi neita

Erla segist ekki hafa kært með það í huga að einhverjum yrði refsað og segist ekki hafa búist við því að svo yrði. „Hans refsing liggur í því að vita hvað hann gerði og lifa með því.“ Í tilkynningu ríkissaksóknara segir að lögreglumaðurinn neiti sök og Erla segir það ekki koma á óvart. „Það var nokkuð viðbúið að hann myndi neita, hann hefur þagað þunnu hljóði öll þessi ár. Ef hann ætlaði að viðurkenna þetta, þá væri hann búinn að því fyrir löngu.“

Var látin nota getnaðarvarnir í einangruninni

Að sögn Erlu renna fangelsisdagbækurnar úr Síðumúlafangelsinu frá þeim tíma sem hún var þar í einangrun stoðum undir kæruna. Þar komi t.d. fram að viðkomandi lögreglumaður hafi farið einn inn í klefa Erlu umrætt kvöld þegar hún segir brotið hafa átt sér stað. Hringt hafi verið í hann frá ríkissaksóknara og aðrir lögreglumenn farið að leita hans. Hún minnist þess að hann hafi stokkið fram í felmtri þegar hann áttaði sig á því að komist gæti upp um hann.

Daginn eftir hafi verið rætt við hana um lyfjagjöf og í framhaldinu hafi henni verið gefin getnaðarvarnarpillan. „Ég var þvinguð til að taka hana inn, eins og öll önnur lyf sem mér voru gefin. En ég var í einangrun í gæsluvarðhaldi og heyrði í engum og sá engan. Ég fór aldrei út, eina fólkið sem ég sá voru fangaverðir og lögreglumenn. Hvers vegna ætti ég að hafa þurft að taka pilluna?“

Ég mun ekki gefast upp

Erla segist sátt við rannsóknina að mestu leyti og segist viss um að embætti ríkissaksóknara hafi gert sitt besta.

Enn hafa engar ákvarðanir hafa verið teknar við embættið í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmál. Erla segist vonast til þess að málið verði tekið upp hið fyrsta. „Þegar ég hugsa um að hafa orðið fyrir þessu öllu saman, þá hef ég löngu sætt mig við að þetta allt hafi gerst. Ég fæ því aldrei breytt. En ég verð ekki sátt sem samfélagsþegn og fórnarlamb í þessu máli fyrr en þetta mál verður tekið upp aftur. Ég mun ekki gefast upp fyrr en þetta mál verður tekið aftur upp.“

Frétt mbl.is: Rannsókn á kæru Erlu er hætt

Frá blaðamannafundi innanríkisráðherra og starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmálið í …
Frá blaðamannafundi innanríkisráðherra og starfshóps um Guðmundar- og Geirfinnsmálið í mars síðastliðnum. Rósa Braga
Erla Bolladóttir.
Erla Bolladóttir. Rósa Braga
Frá málflutningi í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
Frá málflutningi í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert