Samhliða tækniframförum hefur orðið breyting á miðlun veðurupplýsinga hér á landi. Þegar mest var voru 40 mannaðar veðurstöðvar hér á landi sem sendu Veðurstofunni veðurskeyti á þriggja tíma fresti, en nú eru þær aðeins 21.
Árni Sigurðsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, telur að net mannaðra stöðva sé orðið of gisið og nýjasta tækni standi mannsauganu ekki alltaf framar, hvað veðurathuganir varðar.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir hann persónulegar upplýsingar frá veðurathugunarfólki mikils virði en þær gefi upplýsingar varðandi fleiri þætti en sjálfvirku stöðvarnar. Þær gefa í flestum tilfellum aðeins upp vindstyrk, hita og raka.