Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að eitt meginverkefni nýrrar ríkisstjórnar sé að bæta starfsumhverfi atvinnulífsins og hvetja til aukinna fjárfestinga. Mikil óvissa og síbreytileg skilyrði á undanförnum árum hafa dregið verulega úr fjárfestingarvilja.
„Skapa þarf fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum skilyrði til að þau geti og vilji fjárfesta. Til þess þarf að skapa traust og stöðugleika. Stórauknar fjárfestingar eru forsenda öflugs og samkeppnishæfs atvinnulífs sem risið getur undir auknum kaupmætti launa og bættum lífskjörum. Mestu skiptir að fjárfestingar í greinum í alþjóðlegri samkeppni aukist,“ skrifar Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, á vef samtakanna.
Hann tekur fram, að mikilvægasta forsenda aukinna fjárfestinga á næstu árum sé stöðugleiki í verðlags- og gengismálum. Það krefjist mikils aga. Þrjár stoðir efnahagsstefnunnar leiki þar meginhlutverk, þ.e. ríkisfjármál, peningamál og kjarasamningar.
„Ný ríkisstjórn ætti að stefna að svipaðri verðbólgu og í viðskiptalöndunum og verulegri lækkun vaxta. Stefnan í ríkisfjármálum verður að styðja við framangreind markmið. Megináhersla hlýtur að verða lögð á lækkun skulda ríkissjóðs. Kjarasamningar á næstu árum verða að samrýmast markmiðum um verðstöðugleika ef árangur á að nást,“ segir Þorsteinn.