Hvalir þurfa vernd

Hvalveiðar Íslendinga eru til umfjöllunar í ritstjórnargrein hjá bandaríska dagblaðinu New York Times í dag. Þar er fundið að veiðunum og þjóðir heims hvattar til að mótmæla framferði Íslendinga. Leiðarahöfundur segir í lokin að allar hvalategundir þurfi á sem mestri vernd að halda.

Árið í ár er það síðasta sem veiða má langreyði samkvæmt fimm ára leyfi sem gefið var út árið 2009. Alls má veiða 154 dýr en flytja má fimmtung kvóta á milli ára frá síðasta ári.
Það er fyrirtækið Hvalur hf. sem ætlar að hefja veiðarnar í byrjun júní en það er í eigu Kristjáns Loftssonar. Árið 2009 veiddu skip fyrirtækisins 125 langreyðar og 148 árið eftir.

Vegna versnandi efnahagsástand í Japan, sem er helsta innflutningsland hvalkjöts, í kjölfar jarðskjálftans og flóðbylgjunnar miklu árið 2011 voru hvalveiðar hvorki stundaðar hér við land það ár né í fyrra. Batnandi ástand á markaði þar er sögð ástæðan fyrir því að veiðarnar séu teknar upp á nýjan leik.

Í ritstjórnargrein New York Times er vísað til þessa og það tekið fram að langreyðar séu í útrýmingarhættu. „Þjóðir sem ekki veiða hvali - Bandaríkin og aðrar þjóðir heims - verða að mótmæla þessum veiðum,“ segir meðal annars í leiðaranum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert