Farið fram á endurupptöku máls samkynhneigðs hælisleitanda

Samtökin '78 benda á að nýlega hafi verið hert á …
Samtökin '78 benda á að nýlega hafi verið hert á löggjöf í Nígeríu sem gerir samkynhneigð refsiverða. Þar séu jafnframt gríðarlegir samfélagslegir fordómar gagnvart samkynhneigð. mbl.is/Ómar

Samtökin '78, félag hinsegin fólks á Íslandi, fara fram á að innanríkisráðuneytið endurskoði þá ákvörðun að synja samkynhneigðum Nígeríumanni um efnislega meðferð á umsókn um hæli á Íslandi.

Þau segja sterk mannúðarsjónarmið sem og lagaleg rök séu fyrir því að afgreiðsla á máli mannsins á Íslandi verði endurskoðuð.

„Farið er fram á að ákvörðun verði tekin um að fresta fyrirhugaðri brottvísun Martins frá Íslandi á meðan unnið er að því að fá þá endurskoðun, hvort sem það verður með atbeina dómstóla, endurupptöku málsins hjá Útlendingastofnun eða eftir öðrum leiðum,“ segja samtökin í bréfi sem þau hafa sent innanríkisráðuneytinu.

Þar kemur jafnfram fram að maðurinn hafi sótt um hæli á grundvelli kynhneigðar sinnar eftir að hafa flúið frá Nígeríu til Ítalíu vegna ofbeldis og niðurlægingar sem hann mátti sæta. Bent er á að hann hafi dvalist á Ítalíu undanfarin níu ár við bágbornar aðstæður.

Samtökin segja að aðstæður hinsegin fólks í Nígeríu séu afar slæmar og fara versnandi samkvæmt upplýsingum frá Amnesty International og öðrum mannréttindasamtökum.

Þá segir að nýlega hafi verið hert á löggjöf þar sem gerir samkynhneigð refsiverða og gríðarlegir samfélagslegir fordómar geri að verkum að líf hinsegin fólks sé í hættu og ofsóknir á grundvelli kynhneigðar algengar án þess að yfirvöld veiti einstaklingum sem verða fyrir barðinu á slíku nokkra vernd.

„Yfirgnæfandi líkur eru á að verði Martin sendur aftur til Ítalíu á grundvelli Dyflinnar-reglugerðarinnar, muni hann verða sendur aftur til Nígeríu. Hefur beiðni Martin um hæli á Ítalíu þegar verið hafnað.  Ekki einungis er Ítalía ríki þar sem afar ólíklegt er að hælisleitendur fái réttláta málsmeðferð, heldur er afar lítið tillit tekið til kynhneigðar við málsmeðferð hælisleitenda á Ítalíu samkvæmt upplýsingum Evrópusamtaka hinsegin fólks,“ segja samtökin.

Samtökin '78 krefjast þess að íslensk stjórnvöld tryggi að réttarverndin nái til allra sem dveljast á íslenskri grundu. Annað væri tvískinnungur. Samtökin lýsa sig jafnframt viljug til að styðja og aðstoða Nígeríumanninn eins og mögulegt er á meðan mál hans sé til meðferðar hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka