Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lagt til að gripið verði til refsiaðferða gegn Færeyingum af hálfu sambandsins vegna ákvörðunar þeirra um að setja sér einhliða kvóta úr norsk-íslenska síldarstofninum. Fram kemur á fréttavefnum Scotsman.com að þetta gæti þýtt að innflutningsbann yrði sett á færeyska síld til ríkja Evrópusambandsins og einnig að skipum frá sambandinu yrði bannað að veiða síld í færeyskri lögsögu. Ekki kemur fram að til standi að láta aðgerðirnar ná til landana á öðrum tegundum en síld.
Einnig segir í fréttinni að embættismenn framkvæmdastjórnarinnar séu enn að skoða lagalegar hliða þess að grípa til hliðstæðra refsiaðgerða gegn Íslendingum og Færeyingum vegna makríldeilunnar. Þeir hafi í hyggju að funda sem fyrst með nýrri ríkisstjórn Íslands til þess að ræða stöðuna í deilunni. „Það eru góðar fréttir að loksins sé komin raunveruleg hreyfing á aðgerðir sem miði að því að refsa Færeyingum fyrir óábyrgar veiðar þeirra,“ er haft eftir Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skotlands en hann var staddur í dag á fundi ráðherraráðs Evrópusambandsins þar sem þessi mál voru rætt.
Refsiaðgerðirnar nái einnig til makríls
Lochhead lýsti hins vegar vonbrigðum sínum á því að ekki hafi enn verið ákveðið af hálfu Evrópusambandsins að grípa til refsiaðgerða gegn Íslendingum og Færeyingum vegna makrílveiða þeirra. Sagðist hann vona að það yrði gert innan skamms. Sagði hann nokkur ríki sambandsins hafa lýst mikilli óánægju sinni með það. „Ég vona að þessi aðgerð vegna síldarinnar muni fá Færeyinga og Íslendinga til þess að koma aftur að samningaborðinu - með alþjóðlegum sáttasemjara ef þörf er á - og samþykkja langtíma samkomulag með það að markmiði að vernda fiskistofninn og viðurværi skoska fiskveiðiflotans til framtíðar.“
Haft er eftir Ian Gatt, framkvæmdastóri Samtaka skoskra uppsjávarsjómanna, í samtali við breska ríkisútvarpið BBC í dag, að ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins væri fyrsta skrefið í þá átt að refsa Færeyingum vegna síldveiða þeirra. Hins vegar ættu þær refsiaðgerðir einnig að ná til makríls enda væru tegundirnar tvær gjarnan veiddar samhliða.
Líkt og Lochhead lýsti Gatt vonbrigðum sínum með að enginn frekari árangur hefði orðið í því að beita Íslendinga og Færeyinga refsiaðgerðum vegna makrílveiða þeirra. „Í tilfelli Íslands hvetjum við framkvæmdastjórnina til þess að óska eftir tafarlausum fundi með nýrri ríkisstjórn Íslands og reyna að koma viðræðuferlinu aftur af stað,“ sagði hann. Tækist það hins vegar ekki yrði að grípa til refsiaðgerða án tafar enda hefðu allar aðrar leiðir verið reyndar án árangurs.