Íslensk rannsókn vekur heimsathygli

Vilmundur Guðnason og Valur Emilsson. Veggurinn bak við félaganna er …
Vilmundur Guðnason og Valur Emilsson. Veggurinn bak við félaganna er hlaðinn ritgerðum eftir þá. Ómar Óskarsson

Byltingarkenndar niðurstöður rannsóknar tveggja íslenskra vísindamanna á Alzheimers sjúkdómnum hafa vakið gríðarlega mikla athygli erlendis. Rannsóknin birtist nýlega í hinu virta tímariti Cell og snýr að orsökum sjúkdómsins, en hún veitir innsýn í þær flóknu sameindabreytingar sem eiga sér stað í heila sjúklinganna.

Sýni úr heilum hundruða sjúklinga

„Niðurstöður rannsóknarinnar eru byltingarkenndar að því leyti að þau gen sem stýra þessum breytingum [í heila sjúklinganna] hafa nú verið auðkennd,“ segir Dr. Valur Emilsson, stjórnandi rannsóknarinnar. Við rannsóknina var virkni og samspil þúsunda gena könnuð í heilum hundruða sjúklinga sem þjáðust af Alzheimers sjúkdómnum, ásamt einstaklinga sem þjáðust ekki af elliglöpum. Lífsýnabankinn Harvard Brain Bank hjá McLean spítalanum í Boston útvegaði hópnum sýnin.

Í rannsókninni, sem er viðamikil, voru starfræn tengsl genanna könnuð og og kortlögð í ólíkum heilasvæðum sjúklinganna.

Fjölbreyttur rannsóknarhópur

Valur hefur leitt rannsóknina frá upphafi, sem hefur staðið yfir í sex ár. „Ég hóf þessar rannsóknir ekki í sambandi við Alzheimers sjúkdóminn,“ segir Valur. „Ég byrjaði að prófa þessa aðferð sjálfur fyrir tíu árum síðan við rannsóknir á orsökum offitu og sykursýki, lengst af hjá lyfjafyrirtækinu Merck í Seattle.“ Eftir það hélt hann áfram að þróa aðferðirnar sem nýttar voru við rannsóknina. Þetta gerði hann ásamt vinnufélögum hjá Merck og Hjartavernd. „Þetta hefur því verið langur ferill,“ segir Valur.

Fjölmargir lögðu hönd á plóg við vinnu rannsóknarinnar. Þar má sérstaklega nefna samstarfsfélaga Vals, Dr. Vilmund Guðnason, en þeir starfa báðir sem vísindamenn hjá Hjartavernd og Háskóla Íslands.Valur hélt utan um teymið sem samanstóð af vísindamönnum víða af úr heiminum.

Innan teymisins störfuðu meðal annars líffræðingar, læknar, stærðfræðingar, tölvunarsérfræðinnar, eðlisfræðingar og efnafræðingar. „Það sem er svo skemmtilegt við þetta fag, er hvernig það reynir á samspil margra þátta innan vísindanna,“ segir Valur. „Framtíðarvísindin byggja á að nýta sér þekkingu af ólíkum sviðum.“

Niðurstöðurnar auki líkur á þróun lækningar

Með birtingu greinarinnar er öllum vísindamönnum gefinn frjáls aðgangur að því gríðarlega magni upplýsinga sem komið hafa úr rannsókninni. „Við vonum að með því að veita vísindamönnum aðgang að þessum nýju upplýsingum og aðferðafræði, muni líkurnar á því að þróa lækningu við Alzheimers sjúkdóm aukast verulega,“ segir Valur.

Nú þegar hafa vísindamenn hvaðanæva af úr heiminum haft samband og leitað sér aðstoðar vegna gagnanna. „Þetta hefur vakið gífurlega athygli“

„Gögnin eru gefin frjáls til vísindasamfélagsins til að vinna úr,“ segir Valur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert