Ríkisstjórn Íslands hvetur Evrópusambandið til þess að koma aftur að samningaborðinu í makríldeilunni. Þetta kemur fram á vefsíðunni The Grocer í dag þar sem vitnað er í Steingrím J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra.
Fram kemur að yfirlýsing Steingríms komi í kjölfar þess að ríki Evrópusambandsins hafi rætt þann möguleika að beita Ísland refsiaðgerðum vegna deilunnar á fundi sjávarútvegsráðherra sambandsins í Brussel í gær.
Haft er eftir ráðherranum að það sé ekki til þess fallið að stuðla að lausn makríldeilunnar að grípa til refsiaðgerða heldur yrði það einungis til þess að gera hana erfiðari viðureignar. Hann bendi ennfremur á að Evrópusambandið og Noregur ætli Íslendingum, Færeyingum og Rússum aðeins 10% makrílkvótans þrátt fyrir að fyrir liggi upplýsingar um að allt að 30% makrílstofnsins væri í íslensku efnahagslögsögunni.